Svo brá Bárði við allt saman, viðureign þeirra bræðra og hvarf dóttur sinnar, að hann gerðist bæði þögull og illur viðskiptis svo að menn höfðu engar nytjar hans síðan.

Þess er getið að Bárður kom einn dag að máli við Sigmund félaga sinn og mælti svo: „Eg sé það,“ segir hann, „að sakir ættar minnar og harma stórra ber eg eigi náttúru við alþýðu manna og því mun eg leita mér nokkurra annarra ráða en fyrir langa og dyggilega þjónustu við mig vil eg gefa þér jörðina hér að Laugarbrekku með því búi er því fylgir.“

Sigmundur þakkar honum gjöfina. Þóri Knarrarsyni gaf hann landið að Öxnakeldu en Þorkatli skinnvefju gaf hann Dögurðará og þar var hin mesta vinátta með þeim með frændsemi og hélst langa ævi.

Eftir þetta hvarf Bárður í burtu með allt búferli sitt og þykir mönnum sem hann muni í jöklana horfið hafa og byggt þar stóran helli því að það var meir ætt hans að vera í stórum hellum en húsum því að hann fæddist upp með Dofra í Dofrafjöllum. Var hann tröllum og líkari að afli og vexti en mennskum mönnum og var því lengt nafn hans og kallaður Bárður Snjófellsás því að þeir trúðu á hann nálega þar um nesið og höfðu hann fyrir heitguð sinn. Varð hann og mörgum hin mesta bjargvættur.

Sigmundur og Hildigunnur bjuggu síðan að Laugarbrekku, er Bárður hvarf, allt til dauðadags og er Sigmundur þar heygður. Hann átti þrjá sonu. Einn var Einar er bjó að Laugarbrekku. Hann átti Unni, dóttur Þóris, bróður Ásláks í Langadal. Hallveig var dóttir þeirra. Hana átti Þorbjörn Vífilsson. Breiður hét annar. Hann átti Gunnhildi, dóttur Ásláks í Langadal. Þeirra son var Þormóður er átti Helgu Önundardóttur, systur Skáld-Hrafns. Þeirra dóttir var Herþrúður er Símon átti. Þeirra dóttir var Gunnhildur er Þorgils átti. Þeirra dóttir var Valgerður, móðir Finnboga hins fróða í Geirshlíð. Þorkell hét hinn þriðji. Hann átti Jóreiði, dóttur Tinds Hallkelssonar.

Eftir andlát Sigmundar bjuggu þau Hildigunnur þar og Einar son hennar. Það var talað að Hildigunnur væri fjölkunnig og fyrir það var henni stefnt af þeim manni er Einar hét og var kallaður Lón-Einar og fór til Laugarbrekku með sjöunda mann og stefndi Hildigunni um fjölkynngi en Einar son hennar var þá eigi heima. Hann kom þá heim er Lón- Einar var nýfarinn á brott. Hún segir honum þessi tíðindi og færði honum kyrtil nýgervan.

Einar tók skjöld sinn og sverð og verkhest og reið eftir þeim. Hann sprengdi hestinn á björgum þeim er Bárður Snæfellsás deyddi Þúfu konu Svals og Þúfubjörg eru kölluð. Einar gat farið þá hjá brekkum stórum og þar börðust þeir og féllu sjö menn af Lón-Einari en þrælar hans tveir runnu frá honum. Þeir nafnar sóttust lengi.

Það segja menn að Einar Sigmundarson hafi kallað á Bárð til sigurs sér. Þá gekk í sundur bróklindi Lón-Einars og er hann tók þar til hjó Einar hann banahögg.

Þræll Einars Sigmundarsonar er Hreiðar hét hljóp eftir þeim og sá af Þúfubjörgum hvar þrælar Lón-Einars hlupu. Hann rann eftir þeim og drap þá báða í vík einni. Það heitir nú í Þrælavík. Fyrir það gaf Einar honum frelsi og land svo vítt sem hann fengi unnið og gert um þrjá daga. Það heitir Hreiðarsgerði og bjó hann þar síðan.

Einar bjó að Laugarbrekku allt til elli og er heygður skammt frá Sigmundarhaugi, föður hans. Haugur Einars er ávallt vallgróinn vetur og sumar.