Bárður minn á jökli

Bárður minn á jökli er íslensk þula eða forneskjubæn sem íslendingar þuldu upp við þæfingu sína fyrr á öldum. Þulan er einnig þekkt undir nafninu „þófaraþula".

Bárður minn á jökli
leggst þú á þófið mitt.
Eg skal gefa þér lóna
innan í skóna,
vettlingsspjör á klóna,
skeifa undir hestinn þinn,
naglabrot í hófinn.
Láttu ganga, Bárður minn.
Eg skal gefa þér méldisk
og barinn fisk,
fjórar stikur vaðmáls
konu þinni í pils,
syni þínum í brók.


Útgáfa Kristrúnar Matthíasdóttur (1921-2011) frá Fossi í Hrunamannahrepp:
Bárður minn á jökli
leggstu nú á þófið mitt.
Eg skal gefa þér lóna
leppana í skóna,
þegar ég kann að prjóna,
naglabrot í bátinn þinn.
hálfskeif undir hestinn þinn,
mórautt lamb og gimburskel
og meira ef þú þæfir vel.