Þess er getið eitthvert sumar að Oddur kemur skipi sínu á Hrútafjörð við Borðeyri og ætlar að vera hér um veturinn. Þá var hann beðinn af vinum sínum að staðfestast hér og eftir bæn þeirra gerir hann svo, kaupir land í Miðfirði það er á Mel heitir. Hann eflir þar mikinn búnað og gerist rausnarmaður í búinu og er svo sagt að eigi þótti um það minna vert en um ferðir hans áður og nú var engi maður jafnágætur sem Oddur var fyrir norðan land. Hann var betri af fé en flestir menn aðrir, góður úrlausna við þá er hans þurftu og í nánd honum voru en föður sínum gerði hann aldrei hagræði. Skip sitt setti hann upp í Hrútafirði.

Það er sagt að engi maður væri jafnauðigur hér á Íslandi sem Oddur heldur segja menn hitt að hann hafi eigi átt minna fé en þrír þeir er auðgastir voru. Í öllu lagi var hans fé mikið, gull og silfur, jarðir og ganganda fé. Vali frændi hans var með honum hvort sem hann var hér á landi eða utanlands. Oddur situr nú í búi sínu með slíka sæmd sem nú er frá sagt.

Maður er nefndur Glúmur. Hann bjó á Skriðinsenni. Það er milli Bitru og Kollafjarðar. Hann áttir þá konu er Þórdís hét. Hún var dóttir Ásmundar hærulangs, föður Grettis Ásmundarsonar. Óspakur hét son þeirra. Hann var mikill maður vexti og sterkur, ódæll og uppivöðslumikill, var brátt í flutningum milli Stranda og norðursveita, gervilegur maður og gerist rammur að afli.

Eitt sumar kom hann í Miðfjörð og seldi fang sitt. Og einn dag fékk hann sér hest og reið upp á Mel og hittir Odd. Þeir kvöddust og spurðust almæltra tíðinda.

Óspakur mælti: „Á þá leið er Oddur,“ segir hann, „að góð frétt fer um yðvart ráð. Ertu mjög lofaður af mönnum og allir þykjast þeir vel komnir er með þér eru. Nú vænti eg að mér muni svo gefast. Vildi eg hingað ráðast til þín.“

Oddur segir: „Ekki ertu mjög lofaður af mönnum og eigi ertu vinsæll. Þykir þú hafa brögð undir brúnum svo sem þú ert ættborinn til.“

Óspakur segir: „Haf við raun þína en eigi sögn annarra því að fátt er betur látið en efni eru til. Beiði eg þig ekki gjafar að. Vildi eg hafa hús þín en fæða mig sjálfur og sjá þá hversu þér gest að.“

Oddur segir: „Miklir eruð þér frændur og torsóttir ef yður býður við að horfa en við það er þú skorar á mig til viðtöku þá megum við á það hætta veturlangt.“

Óspakur tekur það með þökkum, fer um haustið á Mel með feng sinn og gerist brátt hollur Oddi, sýslar vel um búið og vinnur sem tveir aðrir. Oddi líkar vel við hann. Líða þau misseri og er vorar býður Oddur honum heima að vera og kveðst svo betur þykja. Þykir mönnum mikils um vert hversu þessi maður gefst. Hann er og vinsæll sjálfur og stendur nú búið með miklum blóma og þykir engis manns ráð virðulegra vera en Odds.

Einn hlut þykir mönnum að skorta, að eigi sé ráð hans með allri sæmd, að hann er maður goðorðslaus. Var það þá mikill siður að taka upp ný goðorð eða kaupa og nú gerði hann svo. Söfnuðust honum skjótt þingmenn. Voru allir til hans fúsir. Og er nú kyrrt um hríð.