4
6


Nú er frá því að segja að Oddur býr mál þetta til þings og kveður heiman búa. Það verður til tíðinda að maður andast úr kvöðinni. Oddur kveður annan í staðinn. Fara menn nú til þings og er þar kyrrt framan til dóma. Og er dómar fara út hefir Oddur fram vígsmálið og tekst honum það greitt og er nú boðið til varna. Skammt í brott frá dómunum sátu þeir höfðingjarnir, Styrmir og Þórarinn, með flokk sinn.

Þá mælti Styrmir við Þórarin: „Nú er til varna boðið um vígsmálið. Eða viltu nokkur andsvör veita þessu máli?“

Þórarinn segir: „Engu mun eg mér þar af skipta því mér sýnist Odd nóg nauðsyn til reka að mæla eftir slíkan mann sem Vali var en sá fyrir hafður að eg ætla að sé hinn versti maður.“

"Já,“ segir Styrmir, „eigi er maðurinn góður víst en þó er þér nokkur vandi á við hann.“

"Ekki hirði eg það,“ segir Þórarinn.

Styrmir mælti: „Á hitt er að líta að yðvart vandræði mun verða og þá miklu meira og torveldara ef hann verður sekur og sýnist mér ásjámál vera og leitum í nokkurra ráða því að sjáum við báðir vörn í málinu.“

"Fyrir löngu sá eg það,“ segir Þórarinn, „og líst mér þó eigi ráðlegt að seinka málið.“

Styrmur mælti. „Til þín kemur þó mest og það munu menn tala að þér verði lítilmannlega ef fram fer málið en vörnin sé brýn. Er það og mála sannast að vel væri þótt Oddur vissi að fleiri eru nokkurs verðir en hann einn. Treður hann oss alla undir fótum og þingmenn vora svo að hans eins er getið. Sakar eigi að hann reyni hversu lögkænn hann er.“

Þórarinn segir: „Þú skalt ráða og þér mun eg að veita. En eigi er þetta góðvænlegt og mun illan enda eiga.“

"Ekki má að því fara,“ segir Styrmir, sprettur upp og gengur að dómnum, spyr hvað þar fari fram málum manna. Honum er það sagt.

Styrmir mælti: „Svo er háttað Oddur að varnir eru fundnar í máli þínu og hefir þú rangt til búið málið, kvatt heiman tíu búa. Er það lögleysa. Áttir þú það á þingi að gera en eigi í héraði. Ger nú annaðhvort, gakk frá dóminum við svo búið eða vér munum færa fram vörnina.“

Oddur þagnar og hugsar málið, finnur að satt er, gengur frá dóminum með flokk sinn og heim til búðar. Og er hann kemur í búðarsundið þá gengur maður í mót honum. Sá er við aldur. Hann var í svartri ermakápu og var hún komin að sliti. Ein var ermur á kápunni og horfði sú á bak aftur. Hann hafði í hendi staf og brodd í, hafði síða hettuna og rak undan skyggnur, stappaði niður stafnum og fór heldur bjúgur. Þar var kominn Ófeigur karl, faðir hans.

Þá mælti Ófeigur: „Snemma gangið þér frá dómum,“ segir hann, „og er yður eigi einn hlutur vel gefinn að svo er allt snarlegt og snöfurlegt um yður. Eða er hann sekur, Óspakur?“

"Nei,“ segir Oddur, „eigi er hann sekur.“

Ófeigur mælti: „Eigi er það höfðinglegt að ginna mig gamlan. Eða hví mundi hann eigi sekur? Var hann eigi sannur að sökinni?“

"Sannur víst,“ segir Oddur.

"Hvað er þá?“ segir Ófeigur. „Eg hugði að hann mætti bíta sökin. Eða var hann eigi banamaður Vala?“

"Engin mælir því í mót,“ segir Oddur.

Ófeigur mælti: „Hví er hann þá ei sekur?“

Oddur segir: „Vörn fannst í málinu og féll niður.“

Ófeigur mælti: „Hví mundi vörn finnast í máli svo auðigs manns?“

"Það kölluðu þeir að rangt væri heiman búið,“ segir Oddur.

"Eigi mun það vera er þú fórst með málið,“ segir Ófeigur. „En vera kann að þér sé meir lagður fésnúður og ferðir en algott tilstilli um málaferli. En þó ætla eg að þú berir nú eigi satt upp fyrir mig.“

Oddur segir: „Eg hirði aldrei hvort þú trúir eða eigi.“

"Svo kann vera,“ segir Ófeigur, „en þegar vissi eg er þú fórst heiman úr héraði að rangt var til búið málið. En þú þóttist þér ærinn einn og vildir engan mann að spyrja. Nú muntu og vera þér nógur einn um þetta mál. Er nú bæði að þér mun vel takast enda er slíkum allvant um er allt þykir lágt hjá sér.“

Oddur segir: „Það er þó sýnna að eigi verði að þér gagn.“

Ófeigur mælti: „Sú ein er nú hjálpin í þínu máli ef þú nýtur mín við. Eða hversu féspar mundir þú nú vera ef nokkur leiðrétti málið?“

Oddur segir: „Ekki sperði eg fé ef nokkur vildi ganga í málið.“

Ófeigur mælti: „Þá láttu koma í hendur karli þessum sjóð nokkurn digran því að margra manna augu verða féskjálg.“

Oddur fær honum mikinn fésjóð.

Þá spurði Ófeigur: „Hvort var fram færð lögvörnin eða eigi?“

"Fyrr gengum vér frá dómunum, „segir Oddur.

Ófeigur segir: „Það eina heldur fram er þú gerðir óvitandi.“

Nú skiljast þeir og gengur Oddur heim til búðar sinnar.