Bandamanna saga/8
Nú ríða þeir höfðingjarnir til þings og fjölmenna mjög. Ófeigur karl var í flokki Styrmis. Þeir bandamenn mæltu mót með sér á Bláskógaheiði. Egill og Gellir og Styrmir og Hermundur og Þórarinn, ríða nú allir saman suður til vallarins. Þeir ríða austan, Skegg-Broddi og Þorgeir Halldóruson úr Laugardal, en Járnskeggi norðan og hittast hjá Reyðarmúla. Ríða nú allir flokkarnir ofan á völluna og svo á þing. Þar er nú flest um talað sem mál Odds eru. Þykir það öllum mönnum víst vera að hér mun engi fyrir svara, ætla það að fáir þori, enda geri engum, slíkir höfðingjar sem til móts eru. Þykir þeim og allvænt um sitt mál og brasta allmikið. Engi er sá er í móti þeim kasti einu orði. Oddur hefir engum manni um sitt mál boðið. Býr hann skip sitt í Hrútafirði þegar menn voru til þings farnir.
Það var einn dag er Ófeigur karl gekk frá búð sinni og var áhyggjumikið, sér engva liðveislumenn sína en þótti við þungt að etja, sér varla sitt færi einum við slíka höfðingja en í máli voru engar verndir, fer hækilbjúgur, hvarflar í milli búðanna og reikar á fótum, fer þannig lengi, kemur um síðir til búðar Egils Skúlasonar. Þar voru þá menn komnir til tals við Egil. Ófeigur veik hjá búðardyrunum og beið þar til þess er mennirnir gengu í brott. Egill fylgdi þeim út en er hann ætlar inn að ganga þá snýr Ófeigur fyrir hann og kvaddi Egil.
Hann leit við honum og spurði hver hann væri.
"Ófeigur heiti eg,“ segir hann.
Egill mælti: „Ertu faðir Odds?“
Hann kvað svo vera.
"Þá muntu vilja tala um mál hans en það þarf ekki við mig að tala. Miklu er því meir fyrir komið en eg megi þar neitt til leggja. Eru og aðrir meir fyrir því máli en eg, Styrmir og Þórarinn. Láta þeir mest til sín taka þó að vér fylgjum þeim að.“
Ófeigur segir og varð staka á munni:
- Fyrr var sæmra
- til sonar hugsa.
- Gekk eg aldregi
- Odds að sinni.
- Sá hann lítið
- til laga, gassi,
- þótt fjár hafi
- fullar gnóttir.
Og enn kvað hann:
- Það er nú gömlum
- gleði heimdraga
- að spjalla helst
- við spaka drengi.
- Muntu eigi mér
- máls um synja
- því að virðar þig
- vitran kalla.
"Mun eg fá mér annað til skemmtanar en tala um mál Odds. Hefir það verið ríflegra en nú. Muntu eigi vilja synja mér máls. Er það nú helst gaman karls að tala við þess háttar menn og dvelja svo af stundir.“
Egill segir: „Eigi skal varna þér máls.“
Ganga þeir nú tveir saman og setjast niður.
Þá tekur Ófeigur til orða: „Ertu búmaður, Egill?“
Hann kvað svo.
"Býrð þú þar að Borg?“
"Það er satt,“ segir Egill.
Ófeigur mælti: „Vel er mér frá þér sagt og skapfelldlega. Er mér sagt að þú sparir við engan mann mat og sért rausnarmaður og okkur sé ekki ólíkt farið, hvortveggi maðurinn ættstór og góður af sínu en óhægur fjárhagurinn. Og það er mér sagt að þér þyki gott vinum þínum að veita.“
Egill segir: „Vel þætti mér að mér væri svo farið að frétt sem þér því að eg veit að þú ert ættstór og vitur.“
Ófeigur mælti: „Það er þó ólíkt því að þú ert höfðingi mikill og óttast ekki hvað sem fyrir er og lætur aldrei þinn hlut við hvern sem þú átt en eg lítilmenni. En skaplyndi kemur saman helst með okkur og er það harmur mikill er slíka menn skal nokkuð fé skorta er svo eru miklir borði.“
Egill segir: „Það kann vera að það skiptist brátt að hægist ráðið.“
"Hversu kemur það til?“ kvað Ófeigur.
"Þannig hyggst mér,“ segir Egill, „ef undir oss ber féð Odds að þá muni fátt skorta því að oss er þar mikið af sagt auð þeim.“
Ófeigur segir: „Eigi mun það aukið þó að hann sé sagður ríkastur maður á Íslandi. En þó mun þér forvitni á hver þinn hlutur verður af fénu því að þú ert þess mjög þurfi.“
"Það er satt,“ kvað Egill, „og ertu góður karl og vitur og muntu vita gjörla um fé Odds.“
Hann segir: „Þess vænti eg að það sé eigi öðrum kunnigra en mér og kann eg það að segja þér að engi segir svo mikið frá að eigi sé þó meira. En þó hefi eg hugsað um áður fyrir mér hvað þú munt af hljóta.“
Og varð honum vísa á munni:
- Satt er að sækir átta
- seims ágirni beima,
- orð gerast auðar Njörðum
- ómæt, og ranglæti.
- Ynni eg yðr, fyrir mönnum,
- Iðja hlátr að láta,
- Þundum þykkra randa
- þeys, og sæmdarleysis.
"Hvað? Mundi það ólíklegt,“ segir Egill, „og ertu skáld gott.“
Ófeigur mælti: „Ekki skal það draga fyrir þér hverja fullsælu þú munt upp taka en það er hinn sextándi hlutur úr Melslandi.“
"Heyr á endemi,“ segir Egill. „Eigi er þá féð jafnmikið sem eg hugði. Eða hversu má þetta vera?“
Ófeigur segir: „Eigi er það, allmikið er féð. En þess væntir mig að þessu næst munir þú hljóta. Hafið þér eigi svo talað að þér skylduð hafa hálft fé Odds en fjórðungsmenn hálft? Þá telst mér þannig til ef þér eruð átta bandamenn að þér munið hafa hálft Melsland, því að svo munuð þér til ætla og svo mælt hafa, þó að þér hafið þetta með fádæmum upp tekið meirum en menn viti dæmi til, þá munuð þér þessi atkvæði haft hafa. Eða var yður nokkur von á því að Oddur son minn mundi sitja kyrr fyrir geisan yðvarri er þér riðuð norður þangað? Nei, „segir hann Ófeigur, „eigi verður yður hann Oddur ráðlaus fyrir og svo mikla gnótt sem hann hefir til fjár þá hefir hann þó eigi minni gæfu til vitsmunanna og til ráðagerða þegar hann þykist þess við þurfa. Og það grunar mig að eigi skríður að síður knörrinn undir honum um Íslandshaf þó að þér kallið hann sekjan. En það má eigi sekt heita er svo er ranglega upp tekið og mun á þá falla er með fara og þess væntir mig að hann muni nú í hafi með allt sitt nema landið á Mel. Það ætlar hann yður. Frétt hafði hann það að eigi var löng sjávargata til Borgar ef hann kæmi á Borgarfjörð. Nú mun þetta svo setjast sem upp var hafið að þér munuð fá af skömm og svívirðing og gengur þó að maklegleikum og þar með hvers manns ámæli.“
Þá segir Egill: „Þetta mun vera dagsanna og eru nú brögð í málinu. Var það miklu líkara að Oddur mundi eigi sitja ráðlaus fyrir. Og mun eg eigi að þessu telja því að eru þeir sumir í málinu er eg ann vel svívirðingar af og mest æsa málið, svo sem er Styrmir eða Þórarinn og Hermundur.“
Ófeigur mælti: „Það mun fara sem betur er, en það mun fara sem maklegt er að þeir munu fá margs manns ámæli af þessu. En það þykir mér illa er þú hefir eigi góðan hlut af því að þú fellst mér vel í geð og best af yður bandamönnum.“
Lætur hann nú síga fésjóð einn digran niður undan kápunni. Egill brá til augum.
Ófeigur finnur það, kippir upp sem skjótast undir kápuna og mælti: „Á þá leið er Egill,“ segir hann, „að mig væntir að því nær skal fara sem eg hef sagt þér. Nú mun eg gera þér sæmd nokkura“ vindur nú upp sjóðnum og steypir úr silfrinu í skikkjuskaut Egils. Það voru tvö hundruð silfurs þess er best kunni verða. „Þetta skaltu þiggja af mér ef þú gengur eigi í móti málinu og er þetta nokkur sæmdarhlutur.“
Egill segir: „Það ætla eg að þú sért eigi meðalkarl vondur. Er þér engi þess von að eg muni vilja rjúfa særi mín.“
Ófeigur segir: „Eigi eruð þér þó slíkir sem þér þykist. Viljið heita höfðingjar en kunnið yður engan fögnuð þegar þér komið í nokkurn vanda. Nú skaltu eigi svo með fara heldur mun eg hitta það ráð að þú munt halda særi þín.“
"Hvert er það?“ segir Egill.
Ófeigur mælti: „Hafið þér eigi svo mælt að þér skylduð hafa sektir eða sjálfdæmi?“
Egill kvað svo vera.
"Það kann vera,“ segir Ófeigur, „að oss frændum Odds sé þess unnt að kjósa hvort vera skal. Nú mætti svo til bera að undir þig kæmi gerðin. Vil eg þá að þú stillir henni.“
Egill segir: „Satt segir þú og ertu slægur karl og vitur. En þó verð eg eigi til þess búinn og hvorki hefi eg til mátt né liðsafla að standa einn í mót þessum höfðingjum öllum því að fjandskapur mun fyrir koma ef nokkur rís við.“
Ófeigur mælti: „Hvern viltu helst til kjósa af bandamönnum? Láttu svo sem eg eigi á öllum völ.“
"Tveir eru til,“ segir Egill. „Hermundur er mér næstur og er illa með okkur en annar er Gellir og hann mun eg til kjósa.“
"Það er mikið til að vinna,“ segir Ófeigur, „því að öllum ynni eg ills hlutar af þessu máli nema þér einum. En hafa mun hann vit til þess að sjá hvort betra er af að kjósa, að hafa fé og sæmd eða missa fjár og taka við óvirðing. Eða viltu nú ganga í málið, ef undir þig kemur, til þess að minnka gerðina?“
"Það ætla eg víst,“ segir Egill.
"Þá skal þetta vera fast með okkur,“ segir Ófeigur, "því að eg mun koma hingað til þín af annarri stundu.“