Benedikt Sveinsson
eftir Hannes Hafstein
- Vöknar auga Íslending,
- autt er skarð á þingi.
- Kvaddur er á æðra þing
- aldinn þinghöfðingi.
- Hjartað varma’ er hætt að slá,
- hljóðnuð röddin mæra
- hans, sem trúði heitast á
- heiður landsins kæra.
- Fyrir ættjörð hrærðist heitt
- hjartablóðið rauða.
- Orð og hugur hans var eitt,
- hann var trúr til dauða.
- Sterkur enn, með hjör í hönd,
- hann í val er fallinn.
- Meðan blakti’ í brjósti önd,
- bugaðist ekki karlinn.
- Huginn buga hvorki vann
- harðfeng sótt né elli.
- Fram til bana barðist hann.
- Brjánn féll en hélt velli.
- Þar má Ísland minnast manns,
- munið hann fljóð og sveinar.
- Standa munu á haugi hans
- háir bautasteinar.
- Ei var lífið ætíð bjart,
- ýmsir harmar sviðu.
- Hverfult lán og margt og margt
- mæddi í lífsins iðu.
- Hvíldu þig nú ljúft og létt,
- lands þíns réttarvörður.
- Faðmi þig nú fast og þétt
- fósturlandsins svörður.
- Hafðu þökk fyrir hjartans mál,
- hug og þrek og vilja.
- Gleðji nú Drottinn góða sál,
- gefi oss rétt að skilja.
- Hetju, sem er hnigin þar,
- hylji bautasteinar.
- Hinsta orð hans eggjan var. —
- Enn er vígljóst, sveinar!