Bernskuminning
Höfundur: Þorgils gjallandi

Margir réðu mér ráð í æsku minni; sum þutu líkt og vindur um eyrun; önnur festu rætur og nokkur reyndust síðar hégómi og bábilja.

Flest voru þau ráðin af einlægum huga; með leiðbeinandi alvöru; ætlan og ásetningur var góður, hvað sem boðorðunum sjálfum kann að hafa skjátlast á stundum.

Ég var órabelgur, ör í skapi og fjörugur; sóttist eftir gleði og glensi, leik og sjálfræði; mér veitti örðugt að breyta eftir heilræðunum og muna þau.

Það átti heldur vel við mig að fara til næstu bæja, einkum ef ég hafði lipran hest til fararinnar; eða á vetrum þegar svellalög voru svo ég gat leikið mér á skautum.

En roskna fólkinu þótti mér dveljast helst til lengi; það skipti sér oft af því, sem mér virtist það ekki þurfa að láta til sín taka.

Tillögur þeirra bættu mig oftast fremur lítið.

Og eftir þeim fór ég ekki.


Ég hef verið eitthvað tólf til þrettán vetra þegar ég var sendur, til þess að sækja lambær í safnið til nágrannanna.

Þetta var við fráfærnasmölun; veður var bjart og fagurt; ég hafði röskan hest og efldan hund, enda fannst mér ég vera maður með mönnum þann morguninn.

Mig fýsti að finna þá Miklabæjarpilta, þeir voru kátir og gemsmiklir; ég vissi að það yrði glatt á hjalla á Selinu hjá þeim.

Þeir voru komnir með ærsafnið heim að Selinu þegar ég kom og nú þurfti á fótum og fylgi að halda, til þess að reka hópinn í réttina. Okkur var heitt þegar því verki var lokið; svitinn rann af mér. Lömbin höfðu vanist sjálfræði næstu vikurnar; þau voru stygg og hrædd við mennina. Vorgæðin, sem þá voru, gáfu þeim þroska og framkvæmd til hlaupa og sjálfsvarnar.

En falleg voru þau, svo drifhvít á belginn, bústin og sviphrein; augun hvöss, hreyfingarnar eldsnöggar.

Við köstuðum mæðinni, þegar féð var komið í réttina; tveir sátu á dyrakömpunum og við hinir lágum á réttarveggnum; horfðum á féð, gömbruðum og sneiddum hver að öðrum, fyrir smalamennskuna og mistökin við hana.

Mennirnir frá Miklabæ voru ungir og röskir; sumir nokkuð gemsmiklir og háværir; stórbæjarbrag og fjölmennisyfirlæti brá fyrir hjá þeim.

Hann var nokkuð á annan veg maðurinn frá Litlabæ, þótt líkt væri um aldurinn. Hann hafði flust í sveitina þetta vor og ég hafði ekki séð hann fyrri. Fötin voru forn og bætt, þau héngu óliðlega á granna, magra og lotna líkamanum; andlitið var ósællegt, gráu augun smá og lágu innarlega; yfirliturinn gulmórauður, hárið úfið, úlfgrátt og ógreitt; hann var gangvaltur og sigalegur, hægur í bragði og fámáll.

Maðurinn gekk ekki í augun. Hann var ólíkur bústnu og þriflegu piltunum frá Miklabæ. Þeir voru upplitsdjarfir, yfir honum lá heimdragaslæða, afdalabragur.

Nafnið var líka hjárænulegt - að mér fannst -, hann hét Vöttur. Mér datt í hug hvar Þumall bróðir hans væri; hvort hann mundi minni og ósjálegri, við þá hugsun setti að mér hlátur. Annar eins kyrpingur. Það hefði verið gaman að hafa hann þarna á Selinu líka.

Eftir að hafa kastað mæðinni fórum við að ganga um réttina og líta eftir fénu. Vöttur var settur í dyrnar og eitthvað lítilsháttar farið að sauma að honum.

Þá hljóp Brana - forystuærin, í dyrnar og út; Vöttur náði í hana, varð fótaskortur og féð streymdi út.

„Vel fór þér þetta -- snarmennið,“ sagði Helgi hvasst; hann varð skjótastur til dyranna.

Nú var harður hlaupasprettur; lömbin voru snör; líkt og ör, þar sem þau þutu, en við sigruðum þó. Vöttur teymdi Brönu inn og tók aftur stöðu í dyrunum. Eftir það slapp hvorki ær né lamb út um þær.

„Þú slepptir henni ekki, karlinn, en þú áttir fullt í fangi með hana,“ sagði einn piltanna.

„Tæplega hleypur hann uppi fráfærnalambið eins og Þorgrímur á Íshóli gerði, en ána tók hann, og það kalla ég vel af sér vikið,“ sagði annar.

Nú var fyndninni beint að honum. Vöttur svaraði fáu, en það lítið var fullkomlega meinlegt.

Ég fylgdi þeim ótæplega Miklabæjarmönnum, við gerðum gys og dár að Vetti; hann þagnaði, en ýmisleg litbreyting sást á ósællega andlitinu hans.

Og með þögninni sigraði hann loks gabbið; talið snerist að öðru.

Féð mitt var dregið fyrst út; hópurinn varð nokkuð stór fyrir mig einn, því lambféð reyndist aldrei samrækt.

„Ég skal fylgja honum hérna út fyrir hallið. Það get ég gert og þið hafið annríkið og eruð svo sprækir og nærgætnir við veslings lömbin.“

Vöttur fékk að ráða því. Ég hefði heldur kosið einhvern hinna, en lét mér þó þetta lynda. Hann bauð sig einn fram.

Vöttur hvakkaði saman fénu, meðan ég kvaddi Miklabæjarpilta og náði reiðskjótanum. Um leið og ég steig á bak flaug mér í hug: það var kynlegt, að hann ókunnur bauðst til fylgdar; maðurinn, sem ég hafði gabbað saklausan - nú fann ég það - hann gerði það en enginn þeirra Miklabæjarpilta; fyrir þá hafði ég þó hlaupið spöl; til þess að ná hestum þeirra og önnur slík erindi, sem fullorðnir vilja gjarna komast hjá og drengir eru svo fengsælir að ná í.

Við rákum féð út fyrir hallið í hvarf við Selið og töluðum lítið saman, mér var hálf órótt, kersknin var gersamlega rokin úr mér. Þegar þar var komið staðnæmdist Vöttur og ég steig af baki, ærnar dreifðu sér í næði norðan við okkur.

„Þú hefur duglegan og vænan hund, drengur minn; ég held þú sért nú viss með að reka ærnar heim ---. Hvað heldurðu sjálfur um það?“

„Ég er alveg viss með það,“ sagði ég.

„Þú munt vera eitthvað tólf til þrettán vetra ---, og þú hefur misst móðurina; það er þungt, ég hef sjálfur reynt það; mig hefur vantað móðurhandleiðsluna.“

Ég játaði því; mér fór að verða þyngra um andardráttinn; þessi ókunni og ósjálegi maður sló á aðra strengi í brjósti mínu en þeir Miklabæjarmenn.

„Þér hefur sýnst það sama og þeim, að ég sé lítill fyrir manni -- ; ég hef oftar orðið þess var áður. Enginn skapar sig sjálfur.... Ég hef reynt einstæðingsskap og sultarkjör í æsku minni; aðköst og hæðni í stærra mæli en í dag; meðan ég var viðkvæmari og máttarminni --, þá sveið það, nú þoli ég það betur. Þú ert barn og pabbi þinn getur ekki ævinlega haft gætur á þér; félagsskapurinn er misjafnt hollur - það hef ég reynt og það muntu síðar sjá sjálfur. Ég er hér öllum ókunnugur; aðskotadýr að þeim finnst; gárungarnir hafa mig að skotspæni, reyna fyndni sína á því að gabba mig; við þá fullorðnu tala ég ekki um þetta, en þú ert barn að aldri, og því vil ég ráða þér af heilum hug að særa aldrei ókunna og saklausa menn; ekki þó þú þykist sjá olnbogabarna einkennið á þeim. Það er enginn gæfuvegur og engin fremd; heiftarorðin bíta flesta fyrr eða síðar og auðnuleysingjarnir læra, því miður, oftast að brúka það vopnið.

Enginn veit hvar manni mætir, og gárungsaugun sjá ekki glöggt manngildið. Ytra álitið svíkur býsna oft, sú mun þín verða raunin eins og annarra..... það er ekki mikið í mig spunnið, -- ég er heldur ekki sérstaklega að tala um mig, heldur ráðleggja þér það, sem lífsreynslan hefur kennt mér að menn eigi að forðast.“

Ég stóð þegjandi og dreyrrauður, ég skammaðist mín. Hann sagði mér sannleikann þessi ósjálegi maður, sem ég hafði gabbað; óreiður og alvarlegur. Beiskan sannleika og ég átti það líka skilið.

„Farðu nú vel, drengur minn, ég erfi ekkert við þig, - þú ert barn.. en Miklabæjarpiltar hafa alveg gleymt því, hvernig skorturinn og einstæðið er á bragðið; ríkisbúið villir þeim sjónir.“

„Vertu sæll, Vöttur minn, og þakka þér fyrir fylgdina, ég skal muna það sem þú hefur sagt.“ Röddin mín hefur varla verið sjálfbirgingsleg þá stundina.

Hann hélt í höndina á mér og sagði aftur: „Farðu vel, drengur minn.“

Svo gekk hann heimleiðis og ég starði á eftir honum um stund; ég var angurvær í vorblíðunni og lambareksturinn gleymdist þá stundina. Hann, sem hafði vakað fyrir mér næstu daga, fyllt hjartað eftirvænting og stærilæti.

Þegar ég hafði rekið lambféð um stund, var ég þó farinn að hlakka til lambarekstrarins, en orð einstæðingsins frá Litlabæ bjuggu einnig í brjósti mínu.

Síðar hef ég heyrt margar ræður, sem meira var vandað til, af meiri fræðslu voru runnar en engin þeirra hefur geymst jafn óbrjáluð í huganum og orðin einstæðingsins í bættu fötunum; stutta ræðan hans Vattar frá Litlabæ.