Bikarinn
Höfundur: Jóhann Sigurjónsson
Einn sit ég yfir drykkju
aftaninn vetrarlangan,
ilmar af gullnu glasi
gamalla blóma angan.
Gleði, sem löngu er liðin,
lifnar í sálu minni.
Sorg sem var gleymd og grafin,
grætur í annað sinni.
Bak við mig bíður dauðinn,
ber hann hendi styrkri
hyldjúpan næturhimin
helltan fullan af myrkri.