Bjarnar saga Hítdælakappa
13. kafli

Frá því er sagt eitt kveld að Þórður kom að máli við Oddnýju. „Það segir þú mér og margir aðrir,“ segir hann, „að Björn sé drengur góður en mér sýnist eigi svo um suma hluti. Hann setur hund sinn jafnauðigan okkur undir borði en eg hefi eigi fyrr við hunda átt og mun honum leiðast ef deildur er verðurinn.“

Hún segir: „Viltu þess freista þá og vita þá hvað að hafi?“

„Svo munum við vera láta,“ segir hann, „Nú skal vera brauðhleifur syfldur fyrir manni og vitum hvort hann gefi hundinum af. Það fylgir og þessu,“ segir Þórður, „að hestar tveir eru hér í vetur og ginnir hann húskarla mína til þess að gefa þeim. Og er það lítilmannlegt að ginna þá til að gefa hrossum.“

Og nú er breytt var búnaðinum þá gaf Björn hundi eigi síður en áður en þeir Þórður og Björn höfðu mat að minna en hjónin heituðust við í öðru lagi að hlaupa á brott fyrir búnaðar sakir. Fá mál var þetta áður Þórður ræddi um við Oddnýju að hann kvaðst eigi nenna lengur að svelta fyrir hundinn Bjarnar og stoðar þetta ekki. Varð búnaður aftur að koma. Nú er svo gert. Þá líkar hjónum vel en Björn lét sem hann viti eigi.

Oft ræddi Þórður um fyrir Oddnýju hversu honum þótti Björn óþakklátur og stirður um það er við bar. Og eitt sinn er þau áttu um það að ræða kvað Þórður vísu:

Sextán var hugr hjóna,
hverr lifði sér þverrir
ýs í óru húsi,
auð-Hlín, að mun sínum
áðr garðvita gerði
grundar einn fyr stundu
stríðir stökk í búðum
stórgeðr liði óru.

Þar voru þau öll um veturinn við lítið samþykki og ekki var það mjög að vilja Oddnýjar. Því hafði Þórður í fyrstu heitið Birni að hesta hans skyldi færa til haga í Hítarnes eða láta gefa heima ella og hafði Björn viljað að heldur færu í brott en leið undan og varð eigi gert.

Kálfur illviti kom á Hítarnes og spurði hve Þórði líkaði við veturgestinn eða hvort hann réði því er meiri hlutur töðu fórst en hestar hans ætu, gengu síðan að sjá heyið og þótti illa með farið.

Þórði líkar illa og segir Oddnýju að Björn hafi keypt að húskörlum að troða hey hans í saur og spilla því.

Hún segir og kvað Björn eigi mundu það gert hafa að eiga hlut í því að hestum hans væri annan veg gefið en öðrum hrossum „en þú hygg að, að þú efnir allt vel það er þú hefir honum heitið.“

Eftir þetta lét Þórður fara í brott hesta Bjarnar og út í Hítarnes og hafa þeir þá góðan haga. Og lætur þá af gnadd Þórðar við hesta Bjarnar og er nú kyrrt að kalla um stund.