Bjarnar saga Hítdælakappa
17. kafli


Þess er nú við getið að hlutur sá fannst í hafnarmarki Þórðar er þvígit vinveittlegra þótti. Það voru karlar tveir og hafði annar hött blán á höfði. Þeir stóðu lútir og horfði annar eftir öðrum. Það þótti illur fundur og mæltu menn að hvorskis hlutur væri góður þeirra er þar stóðu og enn verri þess er fyrir stóð.

Þá kvað Björn vísu:

Standa stýrilundar
staðar ...
Glíkr er geira sækir
gunnsterkr að því verki.
Stendr af stála lundi
styrr Þórröði fyrri.

Þórði þótti ill sú tiltekja og hneisa er níð var reist í landi hans og hafði þetta á hendur Birni. Og eigi þótti honum yfirbót í vísunni er Björn orti og reið nú um vorið eftir til Bjarnar við sex tigu manna og stefndi honum til alþingis um níðreising og vísu.

Enn ræddu það vinir þeirra að þeir mundu heima sættast heldur en færa svo ljótt mál til alþingis. Björn vill það eigi og koma til þings og sættust þar á málið og hlaut Björn að gjalda þrjár merkur silfurs fyrir níðreising og vísu, fara heim og eru nú sáttir að kalla og er nú kyrrt tvo vetur svo að ekki er í frásögn fært.