Bjarnar saga Hítdælakappa
19. kafli

Svo vilja menn segja að Kálfur illviti bjó nokkura vetur í Hraundal sem fyrr var sagt en eftir það seldi Björn honum Hólm að leigu en Björn og þeir feðgar bjuggu þá á Völlum.

Ofan frá Völlum er Grettisbæli og var Grettir þar í raufinni þann vetur er hann var með Birni en hann bjó þá á Völlum. Þeir lögðust ofan eftir ánni og voru kallaðir jafnsterkir menn.

Á Völlum lét Björn gera kirkju og helga með guði Tómasi postula og um hann orti Björn drápu góða. Svo sagði Runólfur Dálksson.

Því brá Björn búi í Hólmi að hann þóttist vanfær til að hafa tvö bú þótt hann hefði svo fyrst nokkura vetur er hann hafði við tekið búi föður síns. En nú var hann nógur orðinn um kvikfé og skorti nú ekki til að hafa tvö bú og var hann nú í Hólmi og kona hans en Arngeir á Völlum og þau hjón. Ekki hafði vingott verið með þeim Kálfi og Birni fyrr meir þá er Kálfur var í förum með Þórði og ráðum og þótti hann heldur tillagaillur. En nú gerist vinskapur er þeir feðgar bjuggu á landi hans og áttu þeir fjárreiður saman.

Nú er frá því að segja að Kálfur illviti keypti sér land fyrir vestan Hítardalsheiði þar sem heitir Selárdalur. Þar má kalla tvo bæi og heitir að Hurðarbaki annar. Þar bjó sá maður er Eiður hét og átti tvo sonu við konu sinni. Hét annar Þórður en annar Þorvaldur. Það var samtýnis við bæ Kálfs í Selárdal.

Og um haustið eftir er Kálfur hafði fært bú úr Hólmi vestur í Selárdal gerði Þorsteinn, son Kálfs, ferð sína suður yfir heiði og fór á Hítarnes til Þórðar og var þar vel við honum tekið og segir Þorsteinn erindi sitt að hann vill kaupa klyfjar sela.

Þórður mælti: „Hví lætur Björn vinur yðar yður eigi hafa slíkt sem þér þurfið er verið hafið vinir hans?“

Þorsteinn mælti: „Eigi hefir hann veiðiskap til.“

Þórður mælti: „Veistu gjörla vinfengi hans til yðar? Mig minnir að hann lýsti til fjár á hendur yður í sumar á alþingi og mun svo ætla að gera á hendur yður stelafé að þér finnið eigi fyrr en hann hefir sekta yður og mun þá ætla sér landið það er þið búið á og mun hann nýta að eiga land jafnt fyrir vestan heiði sem fyrir austan eða sunnan.“

Þorsteinn kvaðst það ekki spurt hafa.

„Það er nú,“ segir Þórður, „að þið eruð menn grunnsæir og meir gefið málróf en vitsmunir og munuð þið eigi finna fyrr en hann hefir ykkur upp teflt um fjárreiður. Vitið þið ekki um ráð Dálks frænda ykkars og vilduð við Björn enn eiga. En við Dálkur urðum á einu máli um viðskipti yðar og vildum ráða Björn af hendi fyrr en hann sekti yður. En þú þættir mér líklegur til að höggva stórt og muntu mega miklu afla og væri þér happ í og karlmennska ef þú fengir hann af ráðið og yrðir skjótari að bragði en síðan mættir þú fá ríkra manna traust.“

Þorsteinn trúði þessu.

Þórður kvað hann hafa skyldu erindi sitt sem hann beiddi „og vil eg eigi fyrir hafa nema vingan því að þú skalt kom í Hólm er þú ferð heim og seg að þú munt koma síðar að vitja geldfjár. Og seg föður þínum ekki til um þetta er þú kemur heim.“

Nú fer Þorsteinn á brott með fenginn og gerði sem Þórður bauð, kom í Hólm og segir Birni, kvaðst síðar mundu vitja sauða er þeir höfðu þar átt feðgar. Síðan fór Þorsteinn heim og færði föður sínum fangið.

Og eigi miklu síðar fór hann suður um heiði og kom í Hólm aftan dags er menn sátu við elda. Þorsteinn drap á dyr og gekk Björn til hurðar og heilsaði honum og bauð honum þar að vera.

Hann lést mundu fara lengra, ofan til Húsafells til Dálks frænda síns, og bað Björn leiða sig á götu „og skulum við skipa til að eg megi ná sauðfé mínu á morgun og reka heim.“

Nú gengur Björn með honum úr garði og þóttist finna að hann ræddi ekki af hugðu um rétta skipan sem hann væri hugsi og litverpur mjög. Björn segir er þeir komu í hraunið að hann muni aftur hverfa.

Þorsteinn hafði bolöxi í hendi í hávu skafti og biturlega en var sjálfur léttbúinn að klæðum. Birni kom í hug að hann hafði komið til Þórðar áður hann færi vestur. Hann sá Þorstein vera litverpan og grunaði að hann mundi vera flugumaður, hopaði frá honum nokkuð og gaf honum færi. Þorsteinn lýsti brátt yfir hvað honum bjó í skapi. Hann reiddi upp öxina og vildi færa í höfuð Birni en Björn rann undir höggið því að honum var þessa alls von og tók um Þorstein miðjan og hóf upp á bringu sér. Honum varð laus öxin og féll hún niður. Síðan keyrði Björn hann niður og eigi þyrmilega svo að honum var lítils vant og tekur um barka hans og kyrkir til þess að hann var dauður og hafði engi vopn við hann. Síðan kasaði Björn hann þar í hrauninu og gekk heim eftir það.

Húskarlar hans spurðu hvar þeir Þorsteinn hefðu skilið. Hann kvað vísu:

Kálfs veit eg son sjálfan,
sverða goðs, á roðnum,
ræddu kapp né kvíddu,
Klifsjörva nam eg fjörvi.
Og vógum þann þeygi
Þundar gráps með vápnum.
Fall varð fleygiþolli
fjörgrand Niðar branda.

Björn svaf af um nóttina en um morguninn stóð hann upp og fór þegar með húskörlum sínum þar til er hann hafði dysjað Þorstein og nefndi votta og óhelgaði hann að lögum.

Síðan reið Björn vestur um heiði til Kálfs og bauð honum bætur fyrir son sinn, eigi af því að þess væri vert heldur fyrir vingan þeirra og þeir höfðu áður búið á landi hans og áttu enn fjárreiður saman „en eg veit,“ segir Björn, „að þetta hafa verið ráð Þórðar er Þorsteinn veitti mér tilræði.“

Kálfur kvaðst vilja bætur taka ef hann hefði sjálfdæmi en eigi ella.

Björn kvað þess eigi kost og kvað Kálf ógjörla kunna sig þar sem hann bauð honum að bæta óhelgaðan mann, reið á brott síðan. Og hefir Björn nú drepið þrjá menn fyrir Þórði og gert alla ógilda að lögum réttum.