Bjarnar saga Hítdælakappa
2. kafli

Þá er Björn hafði verið fimm vetur með Skúla frænda sínum bar það til tíðinda að skip kom í Gufárós. Það skip áttu norrænir menn. Skúli bóndi reið til skips og bauð þegar kaupmönnum til sín því að hann hafði vana til þess að taka við kaupmönnum og eiga gott vinfengi við þá. Fóru þá enn þrír til vistar með honum þegar þeir höfðu upp sett skip sitt. Björn var viðfeldinn við kaupmenn bæði í fylgd og þjónustu og líkaði þeim til hans vel.

Björn kom að máli við Skúla frænda sinn og beiddi að hann mundi koma honum utan með kaupmönnum þessum. Skúli tók því vel, sagði sem satt var að þeir menn fengu margir framkvæmd að miklu voru síður á legg komnir en hann, segist og til skulu leggja með honum slíkt er hann þykist þurfa. Björn þakkaði honum gott tillag við sig bæði þá og fyrr.

Réðst Björn þá í skip með kaupmönnum þessum. Fékk Skúli frændi hans og faðir hans honum góðan farareyri svo að hann var vel sæmdur af að fara með góðum mönnum. Ekki varð sögulegt um þarvist kaupmanna. Fóru þeir nú til skips er voraði og bjuggu og lágu svo til hafs.

Björn reið nú til Borgar að finna Skúla frænda sinn. Og er þeir finnast segir Björn honum að hann vill eigi annað en fá Oddnýjar Þorkelsdóttur áður hann fór brott. Skúli frétti hvort hann hefði nokkuð þetta við hana talað. Hann sagði það víst.

„Þá skulum við fara,“ segir Skúli og svo gera þeir, koma í Hjörsey og finna Þorkel og dóttur hans Oddnýju.

Hefir Björn þá uppi orð sín og biður Oddnýjar. Þorkell tók þessu vel og skaut mjög til ráða dóttur sinnar. En sakir þess að henni var Björn kunnigur áður og þau höfðu elskast sín á millum mjög kærlega þá játaði hún. Fóru þá þegar festar fram og skyldi hún sitja í festum þrjá vetur og þó að Björn sé samlendur fjórða veturinn og megi eigi til komast að vitja þessa ráðs þá skal hún þó hans bíða. En ef hann kemur eigi til á þriggja vetra fresti af Noregi þá skyldi Þorkell gifta hana ef hann vildi. Björn skyldi og senda menn út að vitja þessa ráðs ef hann mætti eigi sjálfur til koma. Lagði Skúli fram með Birni svo mikið fé að það var eigi minna góss en allt það er Þorkell átti og mundur Oddnýjar dóttur hans.

Skildu þau að þessu og fylgdi Skúli Birni til skips og þá mælti Skúli: „Þá er þú kemur til Noregs Björn og finnur Eirík jarl vin minn, þá ber honum kveðju mína og orðsending til að hann taki við þér og vil eg ætla að hann geri þetta og fær honum gull þetta til jartegna því að þá má hann eigi við dyljast að mér þykir betur.“

Björn þakkar Skúla allan þann góðvilja sem hann hafði honum téð síðan hann kom til hans og skildust síðan. Þetta var ofarlega á dögum Eiríks jarls.

Þeir sigldu snemma sumars. Tókst þeim ferð sín greiðlega og komu við Noreg. Fann Björn brátt Eirík jarl og bar honum kveðjur Skúla og jartegnir.

Jarl tók því vel og kveðst gjarna skyldu gera hans erindi „og skaltu, Björn, vera velkominn.“

Björn kveðst það gjarnan vilja. Fór hann til hirðar jarls og var með honum í góðu haldi.