Bjarnar saga Hítdælakappa
23. kafli

Nú er frá því að segja að eitt sinn áttu þeir hestaþing, Björn og Þórður, hjá Fagraskógi og koma þeir fyrr en alþýða héraðsmanna. Þá var Þórður beðinn skemmtanar og tók því eigi fjarri. En það var upphaf er hann kvað vísur þær er hann kallaði Daggeisla. Vísur þær hafði hann ortar um Þórdísi konu Bjarnar en hana sjálfa kallaði hann jafnan Landaljóma.

Björn hlýddi skemmtan hið besta en lét eigi þurfa sig skemmtanar að biðja og að sjá hér í mót. Þá er Þórður hafði lokið tekur Björn og skemmtir vísum þeim er hann kallaði Eykyndilsvísur.

Og er lokið var spurði Þórður syni sína, Arnór og Kolla, hve þeim líkaði þessi skemmtan.

Arnór mælti: „Víst líkar mér illa og eigi um slíkt sætt.“

Kolli mælti: „Eigi sýnist mér svo. Mér þykir jafnskapnaður að verki komi verka á mót.“

Nú er kyrrt og koma héraðsmenn og hafa slíka skemmtan sem ætlað var og er ekki getið að þar yrði fleira til nýlundu. Er nú sem fyrr að Þórður undi hvergi betur við en áður.

Enn er þess getið einu sinni að þeir höfðu mælt til skemmtanar og hestavígs og gekk Björn að mjög og keyrði hestinn annan og hafði digran hestastaf í hendi. Þórður sat á hrossbaki og reið svo hjá mannhringnum og sá á vígið. Og þá er Þórð bar inn mest í hringinn leggur hann spjóti til Bjarnar er hann hafði í hendi og kom í herðarblað honum. Björn snarast við og reiddi stafinn og rak við eyra Þórðar svo að hann féll af baki. Og þá var eigi kostur fleira að gera því að menn hlupu í milli og skildu þá. Ekki er annars getið en þeir létu þetta á ganga og er nú kyrrt um hríð.