Bjarnar saga Hítdælakappa
30. kafli


Nú líður veturinn af hendi og sumarið og voru kyrr mál þeirra að kalla. Á því hausti fór Þorfinnur Þvarason út á Nes til föður síns og voru fimmtán saman og hafði hann sverð Bjarnar, Mæring, en Björn hafði vopn hans. Björn var heima og fátt manna. Voru sumir húskarlar farnir til rétta í Langavatnsdal en sumir annan veg. Þórður og Kálfur sátu fjölmennt á Hítarnesi svo að Björn vissi eigi og ætluðu ef þeim þætti færi á gefa að brenna Björn inni.

Arngeir karl fór heiman og ætlaði í Knarrarnes að leita kynnis og tók um morguninn vopn Bjarnar þau er heima voru en Björn var genginn til hrossa sinna. Arngeir fór villur og fann eigi fyrr en hann kom til fjóss Þórðar á Hítarnesi og hitti hann nautamann og vísaði hann honum þegar á brott. En þá voru konur í fjósi og máttu þær eigi yfir þegja komu Arngeirs er þær komu inn.

Og er þeir Þórður og Kálfur og Dálkur verða þess varir að fátt var manna heima hjá Birni þá ræða þeir um tiltekjur. Og á þeim stundum hafði Þórður ort vísu þessa:

Öllungis bið eg allar,
atgeirs eða goð fleiri,
rétt skil eg, rammar vættir
randóps, þær er hlýrn skópu,
að, styrbendir, standi,
stálgaldrs, en eg valdi,
blóðugr örn of Bjarnar
bráðrauðr höfuðsvörðum.

Og nú fýsir Kálfur mjög að þeir drepi Björn ef þeir mega og kvaðst fyrir löngu búinn vera við Björn að etja þá er hann var meiri fyrir sér en nú.

Dálkur kallar og einsætt vera að neyta nú þess færis er hann hefir fátt manna og kvað þeim þungt vegist hafa við Björn og mundi mál þykja að eiga eigi hans ofsa yfir höfði sér ef réttast mætti og kvað Þórð skyldan til að beitast fyrir og skipa til „en aðrir að fylgja þér.“

Nú ráða þeir það af að Kálfur fer til Hurðarbaks eftir sonum Eiðs, Þorvaldi og Þórði, og segir þeim orðsending Þórðar Kolbeinssonar og hvað þeir ætluðust fyrir. Þeir bregða við skjótt og fara með Kálfi og ber svo til för þeirra að þeir eiga að fara yfir Þórarinsdalsá í Hítardal. Þar hitta þeir griðkonu Bjarnar við ána er fara skyldi út á Völlu. Þeir spurðu hana tíðinda úr Hólmi, hvað menn höfðust að eða hve mart manna heima væri með Birni en hún var ekki til mállöt og sagði þeim til mart, kvað þrjá menn heima aðra en Björn og kvað þá þó í skógi og höggva við.

Nú skiljast þau og fara þeir sem hvatast á fund Þórðar og Dálks og búast þegar til aðfarar við Björn. Fara menn fjórir og tuttugu og var þar Kolli son Þórðar. Þeir fóru um aftaninn til náttverðar undir Hraun og fara síðan um nóttina götur þær er upp liggja í dalinn frá Völlum uns þeir koma í Hólmsland og töluðust þá við. Skipaði Þórður til hversu að skal fara að ná Birni.

Nú mæla þeir og til fasta með sér á þessi stefnu ef þeir geta Björn að jörðu lagðan að þeir skulu allir skyldir að gjalda upp fé ef fébætur eru teknar eftir hann, Þórður fyrst að upphafi og Dálkur og Kálfur, hver þeirra er banamaður hans yrði. Þann dag skulu vera réttir í Þórarinsdal og aðrar í ofanverðum Hítardal.