Bjarnar saga Hítdælakappa
5. kafli

Á öðru sumri fyrr en nú var frá sagt spyr Þórður af kaupmönnum í Hvítá að Björn var sár orðinn og keypti að þeim að þeir segðu hann andaðan og svo gerðu þeir. Síðan sagði Þórður opinberlega andlát Bjarnar og kvað þá menn hafa sagt sér er hann höfðu moldu ausið. En engi kunni í móti að mæla og þótti Þórður ólíklegur til lygi.

Síðan kom Þórður í Hjörsey og bað Oddnýjar. Frændur hennar vildu eigi gifta honum hana fyrr en sú stund væri liðin er á kveðið var með þeim Birni en að sumri er skip kæmu og spyrðist þá eigi til Bjarnar þá sögðust þeir mega um ræða.

Nú komu skip út og vissu þeir eigi til Bjarnar að segja því að hann kom eigi fyrr til Noregs en þau voru út látinn. Nú heldur Þórður á málinu og verður Oddný honum gift.

En þá er þeir Björn voru búnir til hafs sigldi að þeim skip af hafi. Þeir Björn tóku bát og reru til skipsins og vildu vita tíðinda því þeir voru af Íslandi komnir. Þeir sögðu gjaforð Oddnýjar. Og er Björn vissi það vildi hann eigi til Íslands fara.

Þann vetur fór Björn til hirðar Eiríks jarls og var með honum. Og er þeir lágu við Hamarseyri orti Björn vísu:

Hristi handar fasta
hefr drengr gamans fengið.
Hrynja hart á dýnu
hlöð Eykyndils vöðva
meðan vel stinna vinnum,
veldr nökkvað því, klökkva,
skíð verð eg skriðar beiða
skorðu, ár á borði.

Björn var enn með hina sömu virðing og fyrr með jarlinum.

Um sumarið eftir fór Björn vestur til Englands og fékk þar góða virðing og var þar tvo vetur með Knúti hinum ríka. Þar varð sá atburður er Björn fylgdi konungi og sigldi með liði sínu fyrir sunnan sjá að fló yfir lið konungs flugdreki og lagðist að þeim og vildi hremma mann einn en Björn var nær staddur og brá skildi yfir hann en hremmdi hann næsta í gegnum skjöldinn. Síðan grípur Björn í sporðinn drekans annarri hendi en annarri hjó hann fyrir aftan vængina og gekk þar í sundur og féll drekinn niður dauður. En konungur haf Birni mikið fé og langskip gott og því hélt hann til Danmerkur. Þá gerði hann félag við Auðunn bakskika, víkverskan mann en danskan að sumu kyni. Þá var Auðun áður útlægur ger af Noregi. Hann hafði tvö skip til félags við hann og lögðu síðan austur fyrir Svíþjóð í hernað og herjuðu um sumarið en voru um veturinn í Danmörk. Þetta var iðn þeirra í þrjá vetur.