Bjarnar saga Hítdælakappa
9. kafli


Björn var nú með konungi. Og eitthvert sinn er þeir hjöluðu, konungur og Björn, þá mælti Björn:

„Veit eg herra um þá menn er mig rægðu við þig af fundi okkrum Þórðar, að þeir mundu geta þess hvað eg virti mest til að eg drap eigi Þórð og menn hans?“

Konungur mælti: „Eigi var mér það sagt.“

Björn mælti: „Eg skal þá segja þér að eg virti þig svo mikils ósénan að fyrir því drap eg Þórð eigi og alla skipshöfn hans, að hann hafði yðar veturgestur verið, og það mundi hann reyna ef við fyndumst og ættir þú eigi hlut í eða þætti þér eigi misboðið.“

Konungur mælti: „Heyrum þetta nú af þeim mönnum er oss sögðu því að þá reynum vér að góðum mönnum og munu þeir satt segja.“

Nú var svo gert og gengu þeir við að Björn hafði svo mælt að konungs nyti að er hann dræpi Þórð eigi og förunauta hans.

Konungi þótti nú enn meira vert en áður er hann hefði Þórði upp gefið fyrir hans sakir.

Þeir menn voru með konungi er vissu skipti þeirra Bjarnar og Þórðar er þeir voru með Eiríki jarli og sögðu það konungi og hafði Björn gefið allt með vitnum.

Konungur segir: „Það er nú og rétt,“ segir hann, „að hásetar Þórðar hafi svarið til fjár síns í mínu umdæmi en Þórði til friðar.“

Björn kvaðst ætla að eigi mundi hann honum þyrma nema konungs nyti að.

„Meiri vinur minn skaltu vera héðan af en hingað til,“ segir konungur en kvað þeim þó nú það eina sóma að halda sætt þá er hann hafði gert þeirra á meðal. „En það vildi eg,“ segir konungur, „að þú létir af hernaði. Þótt þú þykist vel með því fara þá verður þó oft guðs rétti raskað.“

Björn kvað svo vera skyldu og kvaðst fús með honum að vera.

Konungur mælti: „Vel verður þú mér að skapi en ekki mun okkur auðið löngum saman að vera því að hingað er von Þorkels Eyjólfssonar vinar míns og mun hann snöggt vera ósáttur við þig fyrir sakir Þórðar. Og er það ráðlegt að halda út til Íslands.“

Það haust var Björn með konungi og voru sáttir heilum sáttum og þá Björn góðar gjafir af honum.

Sá atburður varð þar að veislu einni þá er Björn fylgdi konungi, og jafnan voru margir velgerningar veittir konungi sem maklegt var, og honum var ger kerlaug því að eigi er annarra lauga kostur í Noregi. Konungur og hans menn fóru í laugina og lögðu menn klæði sín á völlinn en tjaldað var yfir laugina. En það var mönnum þá títt að hafa reimar, því líkar sem lindar væru, og var því vafið frá skó og til hnés og höfðu það jafnan helstu menn og tignir. Og það sama hafði konungur og Björn. Og er Björn gekk til klæða sinna fyrr en aðrir menn og voru föt Bjarnar hjá klæðum konungs og varð Birni eigi að hugað fyrr en menn voru klæddir að Björn hafði skipt um reimarnar við konung og sagði honum þegar til vanhyggju sinnar. En konungur skipaði kyrrt vera og kvað þá eigi verri er hann hafði. Björn hafði ávallt þessa reim um fót sinn á meðan hann lifði og með henni var hann niður grafinn. Og þá miklu síðar er bein hans voru upp tekin og færð til annarrar kirkju þá var sú hin sama ræma ófúin um fótlegg Bjarnar en allt var annað fúið og er það nú messufatalindi í Görðum á Akranesi.

Og nú um veturinn eftir var Björn í Noregi og gaf Ólafur konungur honum skikkju vandaða og hét honum sinni vináttu og kallaði hann vera vaskan mann og góðan dreng.