Blaðsíða:Aðils - Nýji sáttmáli. - Gamli sáttmáli.djvu/8

Þessi síða hefur verið staðfest

4

frjálst sambandsland Noregs með fullu sjálfstæði eða fullveldi í öllum innanlands málum.

En hver eru þá eftir »Gamla sáttmála sameiginleg mál Noregs og Íslands? Eftir »Gamla sáttmála« er konungur sameiginlegur með Íslendingum og Norðmönnum, en konungi sjálfum fylgja utanríkismálin. Þessa atriðis verða menn vel að gæta, því á því veltur aðalþrætan um þessar mundir, á því veltur deilan um, hvort hér er um nokkurt afsal að ræða eða eftirgjöf á fornum rétti. Utanríkismál eru að vísu hvergi nefnd berum orðum í »Gamla sáttmála«, en þess ber að gæta, að íslendingar áttu þá eigi önnur utanríkismál en verzlunarmálin, og þau er nefnd berum orðum í grein þeirri, er áskilur Íslendingum 6 skipsfarma árlega, með öðrum orðum: Þeim er skipað á vald konungs. Að þetta hafi svo verið í raun og veru, þótt því hafi eigi verið næg eftirtekt veitt hingað til, — að utanríkismálin (verzlunarmálin) hafi verið falin konungi til meðferðar á þann hátt, er honum sjálfum þóknaðist, og að hann hafi ráðstafað þeim einn eða í samvinnu við hið norska ríkisráð, án nokkurrar íhlutunar af hálfu Íslendinga, er hægt að sanna með óyggjandi rökum. Frá því á síðari hluta 13. aldar, nokkru eftir að landið gekk undir konung, hafa Noregskonungar einir og Danakonungar eftir þá, skipað til um verzlun Íslands, hafa leyft og bannað erlendum þegnum verzlun á Íslandi, gert samninga við aðra þjóðhöfðingja um slík mál, og það að Íslendingum fornspurðum, án nokkurrar íhlutunar eða afskifta af hálfu alþingis Íslendinga. Eg skal tilfæra hés nokkur dæmi þessu til sönnunar.

Árið 1269 leyfir Eiríkur konungur Magnússon Hamborgurum verzlun og vetrarsetu í öllu ríki sínu (Ísl. fornbréfasafn II, 302). Bréfið er á latínu og hefir því eigi verið lagt fyrir alþingi íslendinga. Árið 1302 gefur Hákon háleggur ásamt með ríkisráði sinu út bréf, er bannar útlendingum verzlun í norðurhluta Noregs og á Íslandi (Ísl. fornbrs. II, 332). Þessu bréfi er á engan hátt mótmælt af alþingi Íslendinga, en öllum kröfum öðrum, er Krók-Álfur kom út með um þessar mundir (1301—1305), t. d. um skipun norskra lögmanna á Íslandi, og skatt-tekju, er harðlega mótmælt og taldar ólögmætar eftir »Gamla sáttmála. Árið 1348 bannar Magnús konungur Eiríksson útlendum kaupmönnum verzlun í skattlönd(Ísl. fornbrs. II, 845). Árið 1419 leyfir Arnfinnur hirðstjóri Þorsteinsson í umboði konungs utanríkiskaupmönnum verzlun og útróðra á íslandi (Ísl. fornbrs. V. 269). Árið 1432 gera þeir Eiríkur af Pommern og Hinrik VI. Englakonungur samning sín á milli út úr sundurþykkju og óeyrðum, og ná nokkrar greinar í þeim samningi sérstaklega til Íslands (Ísl. fornbrs, IV, 523).