Blaðsíða:Alþjóðasamningur um borgararleg og stjórnmálaleg réttindi.pdf/5

Þessi síða hefur verið staðfest

Lagasafn (útgáfa 140b) – Íslensk lög 11. september 2012 Nr. 10 1979 5

3. Nefndarmaður sem kjörinn er til þess að skipa sæti sem lýst hefur verið laust í samræmi við 33. gr. skal gegna embætti það sem eftir er kjörtímabils þess nefndarmanns sem vék úr sæti í nefndinni samkvæmt ákvæðum þeirrar greinar.

35. gr.

Nefndarmenn skulu, með samþykki allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, fá greiðslur af efnum Sameinuðu þjóðanna með þeim skilmálum og skilyrðum sem allsherjarþingið kann að ákveða og skal það taka tillit til þess hve ábyrgð nefndarinnar er mikilvæg.

36. gr.

Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal láta í té nauðsynlegt starfslið og aðstöðu til þess að nefndin geti rækt starf sitt á fullnægjandi hátt samkvæmt þessum samningi.

37. gr.

1. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal kalla saman fyrsta fund nefndarinnar í aðalstöðvum Sameinuðu þjóðanna.
2. Eftir fyrsta fund sinn skal nefndin koma saman á þeim tímum sem kveðið skal á um í fundarsköpum hennar.
3. Nefndin skal að jafnaði koma saman í aðalstöðvum Sameinuðu þjóðanna eða í skrifstofu Sameinuðu þjóðanna í Genf.

38. gr.

Áður en nefndarmaður hefur störf skal hann gefa hátíðlega yfirlýsingu á opnum nefndarfundi um að hann muni rækja störf sín af óhlutdrægni og samviskusemi.

39. gr.

1. Nefndin skal kjósa embættismenn sína til tveggja ára kjörtímabils. Þá má endurkjósa.
2. Nefndin skal setja sér sín eigin fundarsköp, en þessi fundarsköp skulu meðal annars gera ráð fyrir að:
(a) tólf nefndarmenn myndi löglegan fund;
(b) ákvarðanir nefndarinnar skuli teknar með atkvæðum meiri hluta nefndarmanna sem viðstaddir eru.

40. gr.

1. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum takast á hendur að leggja fram skýrslur um þær ráðstafanir sem þau hafa gert og veita gildi þeim réttindum sem hér eru viðurkennd og um vaxandi viðgang þessara réttinda:
(a) innan eins árs frá gildistöku þessa samnings fyrir viðkomandi aðildarríki;
(b) síðan hvenær sem nefndin óskar þeirra.
2. Allar skýrslur skulu lagðar fyrir aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna sem skal koma þeim á framfæri við nefndina til athugunar. Skýrslurnar skulu greina þau atriði og vandkvæði, ef einhver eru, sem hafa áhrif á framkvæmd samnings þessa.
3. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna má, að höfðu samráði við nefndina, koma á framfæri við viðeigandi sérstofnanir afritum af þeim hlutum skýrslnanna sem kunna að falla undir valdsvið þeirra.
4. Nefndin skal athuga skýrslur þær sem aðildarríki að samningi þessum leggja fram. Hún skal koma skýrslum sínum á framfæri við aðildarríkin svo og þeim almennu umsögnum sem hún telur tilhlýðilegar. Nefndin má einnig koma þessum umsögnum á framfæri við fjárhags- og félagsmálaráðið ásamt afritum af þeim skýrslum sem hún hefur móttekið frá ríkjum sem aðilar eru að samningi þessum.
5. Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum mega leggja fyrir nefndina athugasemdir við umsagnir sem kunna að vera gerðar samkvæmt 4. mgr. þessarar greinar.

41. gr.

1. Ríki sem aðili er að samningi þessum má hvenær sem er lýsa því yfir samkvæmt þessari grein að það viðurkenni lögbærni nefndarinnar til þess að taka við og athuga orðsendingar þess efnis að aðildarríki heldur því fram að annað aðildarríki framfylgi ekki skyldum sínum samkvæmt þessum samningi. Orðsendingum samkvæmt þessari grein má því aðeins veita móttöku og taka til athugunar að þær séu lagðar fram af aðildarríki sem hefur gefið yfirlýsingu um að það viðurkenni lögbærni nefndarinnar gagnvart sér sjálfu. Nefndin skal ekki veita móttöku neinni orðsendingu ef það varðar aðildarríki sem hefur ekki gefið slíka yfirlýsingu. Orðsendingar sem mótteknar eru samkvæmt þessari grein skulu hljóta eftirfarandi meðferð:
(a) Ef ríki sem aðili er að þessum samningi telur að annað aðildarríki framfylgi ekki ákvæðum þessa samnings, má það vekja athygli þess aðildarríkis á málinu með skriflegri orðsendingu. Innan þriggja mánaða frá móttöku orðsendingarinnar skal móttökuríkið láta ríkinu sem sendi orðsendinguna í té skýringu eða hverja aðra skriflega greinargerð sem varpar ljósi á málið, sem ætti að hafa að geyma, að svo miklu leyti sem hægt er og eftir því sem við á, tilvísun til þeirra aðgerða og úrbóta sem teknar hafa verið, sem til athugunar eru, eða sem tiltækar eru í málinu innan lands.
(b) Ef málið er ekki útkljáð svo fullnægjandi sé fyrir bæði þau aðildarríki sem í hlut eiga innan sex mánaða frá því að móttökuríkið veitti upphaflegu orðsendingunni móttöku, skal hvoru ríki um sig rétt að vísa málinu til nefndarinnar með tilkynningu til hennar og hins ríkisins.
(c) Nefndin skal því aðeins fjalla um mál sem vísað er til hennar að hún hafi áður fullvissað sig um að í málinu hafi verið beitt og tæmdar allar úrbætur innan lands í samræmi við almennt viðurkenndar grundvallarreglur þjóðaréttar. Þetta skal ekki gilda ef ráðstafanir til úrbóta eru dregnar óhæfilega á langinn.
(d) Nefndin skal halda lokaða fundi þegar hún rannsakar orðsendingar samkvæmt þessari grein.
(e) Að áskildum ákvæðum málsliðar (c) skal nefndin veita hlutaðeigandi aðildarríkjum liðsinni sitt af fremsta megni með það fyrir augum að komast að vinsamlegri lausn í málinu, byggðri á virðingu fyrir mannréttindum og grundvallarfrelsi eins og þau eru viðurkennd í samningi þessum.
(f) Í hverju því máli sem vísað er til nefndarinnar má hún beina til hlutaðeigandi aðildarríkja sem vikið er að í málslið (b) að láta í té allar upplýsingar sem máli skipta.
(g) Hlutaðeigandi aðildarríki sem vikið er að í málslið (b) eiga rétt á að eiga málsvara þegar málið er til athugunar hjá nefndinni og leggja sitt af mörkum munnlega og/eða skriflega.
(h) Innan tólf mánaða frá móttökudegi tilkynningar samkvæmt málslið (b) skal nefndin leggja fram skýrslu:
(i) Náist lausn samkvæmt ákvæðum málsliðar (e) skal nefndin einskorða skýrslu sína við stutta greinargerð um staðreyndir og lausn þá sem náðst hefur;
(ii) Náist ekki lausn samkvæmt ákvæðum málsliðar (e) skal nefndin einskorða skýrslu sína við stutta greinargerð um staðreyndir málsins; þau skriflegu gögn sem lögð voru fram af hlutaðeigandi aðildarríkjum svo og bókun um það sem munnlega kom fram af þeirra hálfu skulu fylgja skýrslunni. Skýrslunni skal jafnan komið á framfæri við hlutaðeigandi aðildarríki.
2. Ákvæði þessarar greinar skulu öðlast gildi þegar tíu ríki sem aðilar eru að samningi þessum hafa gefið út yfirlýsingu samkvæmt 1. mgr. þessarar greinar. Aðildarríkin skulu afhenda aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna þessar yfirlýsingar og skal hann koma afritum af þeim til annarra aðildarríkja. Yfirlýsingu má afturkalla hvenær sem er með tilkynningu til aðalframkvæmdastjórans. Slík afturköllun skal