Blaðsíða:Dómur Landsdóms nr. 3-2011.pdf/14

Þessi síða hefur ekki verið prófarkalesin

14 stofnanirnar skyldu í samstarfi sínu leitast við að þróa aðferðir til sjá fyrir erfiðleika í rekstrarumhverfi á fjármálamarkaði og starfsemi einstakra fjármálafyrirtækja og gera hvorri annarri grein fyrir fyrirhuguðum aðgerðum, sem hefðu verulega þýðingu fyrir þetta rekstrarumhverfi eða þessa starfsemi. Kæmu upp verulegir erfiðleikar í rekstri eins eða fleiri fyrirtækja, sem hefðu mikið vægi á fjármálamarkaði, eða á fjármálamarkaðinum í heild skyldu stofnanirnar hafa samráð um aðgerðir sínar. Kæmi til athugunar að Seðlabanki Íslands veitti lán eða ábyrgð á grundvelli 2. mgr. 7. gr. laga nr. 36/2001 skyldi hann eiga náið samstarf og samráð við Fjármálaeftirlitið um lausn vandans. Ef kerfisáhætta væri til staðar eða yfirvofandi skyldu sérfræðingar stofnananna starfa saman og gera tillögur um sameiginlegar aðgerðir og önnur viðbrögð. Tekið var fram að hvor stofnun bæri sjálfstæða ábyrgð á aðgerðum sínum. Í 8. gr. samningsins var fjallað um þátttöku í alþjóðlegu samstarfi, en í 9. gr. sagði eftirfarandi: „Upplýsingar sem hvor samningsaðili veitir hinum eru háðar þagnarskyldu lögum samkvæmt. Upplýsingarnar skulu einungis nýttar í starfsemi samningsaðila. Samningsaðilar skulu gæta þess að veita ekki upplýsingar á grundvelli upplýsingalaga án samráðs við þann aðila sem þeirra aflaði.“ Samkvæmt gögnum málsins var þessi samningur enn í gildi á þeim tíma, sem ákæra í því tekur til. Í málinu liggur fyrir endurrit ræðu, sem ákærði flutti á viðskiptaþingi 7. febrúar 2007, en þar vék hann meðal annars að alþjóðlegri fjármálastarfsemi hér á landi. Í því sambandi kvað hann áherslu hafa verið lagða á að „draga sem mest úr skrifræði og kostnaði í reglusetningu hins opinbera.“ Þar hafi þegar verið tekin mikilvæg skref og væri fleira í undirbúningi undir merkjum aðgerðaáætlunar með heitinu „Einfaldara Ísland“, enda gætu flóknar og torskildar reglur valdið óþarfa kostnaði og dregið úr samkeppnishæfni atvinnulífsins. Seðlabanki Íslands birti 15. mars 2007 tilkynningu um að matsfyrirtækið Fitch Ratings hafi lækkað lánshæfiseinkunnir íslenska ríkisins á nánar tiltekinn veg. Fyrirtækið teldi Ísland halda „yfirburðastöðu sinni í ríkisfjármálum“, en á hinn bóginn hafi nýjustu gögn um greiðslujöfnuð og hreina erlenda stöðu þjóðarbúsins bent til þess að staða landsins gagnvart útlöndum hafi versnað verulega. Stóraukin „hrein fjármagnsgjöld til útlanda“, einkum vegna vaxtagreiðslna, hafi átt þátt í meiri viðskiptahalla en áður hafi mælst, sem bæri vott um „mjög skuldsett hagkerfi sem er illa búið undir aukna áhættufælni á alþjóðamörkuðum“, og væri aukin hætta á „harðri lendingu“. Þá hafi matsfyrirtækið lýst eftirfarandi skoðun: „Vaxandi greiðslubyrði af erlendum skuldbindingum miðað við tekjur af erlendum eignum eykur einnig