Blaðsíða:Dómur Landsdóms nr. 3-2011.pdf/22

Þessi síða hefur ekki verið prófarkalesin

22 þrautavara“. Spurt væri hvort bankarnir væru orðnir of stórir til þess að koma mætti þeim til bjargar. Í umræðum, sem fóru fram 17. janúar 2008 á Alþingi um stöðu og horfur í efnahagsmálum, vísaði ákærði til þess að fyrr í sömu viku hafi verið gefin út ný þjóðhagsspá, sem undirstrikaði styrk og sveigjanleika íslenska hagkerfisins en vekti einnig athygli á óvissu, sem uppi væri og hafi mest skapast af hræringum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Við það umrót, sem hafi verið á þeim, væri „mikilvægt að allir haldi ró sinni ... sérstaklega í bankaheiminum.“ Þar væru komnar upp nýjar aðstæður, því öflun lánsfjár væri erfið. Nýleg ákvörðun Seðlabanka Íslands um að breyta reglum um endurhverf viðskipti og veðhæfi skuldabréfa skipti þar miklu og væri hún „áreiðanlega ein af ástæðum þess að einn af stóru bönkunum okkar samkvæmt fréttum í morgun hætti við að útvega sér stórt lán á alþjóðlegum mörkuðum, a.m.k. í bili.“ Síðar í umræðunum sagði ákærði að rétt væri að aðstæður hafi „breyst nokkuð á undanförnum vikum“ og væri þá mikilvægt að greina vandann, ástæður hans og hvernig bregðast mætti við honum. Við þær aðstæður skipti „miklu máli að staða ríkissjóðs er sterk, að staða fjármálastofnananna á Íslandi er gríðarlega sterk og að sveigjanleiki hagkerfisins er mikill“. Starfshópur um lausafjárvanda á vegum Seðlabanka Íslands, sem lagt var til að setja á fót í fyrrnefndu minnisblaði 9. nóvember 2007, kom saman til fundar 23. janúar 2008. Samkvæmt fundargerð greindi Tryggvi Pálsson þar meðal annars frá því að „lánasérfræðingar innan Landsbankans væru í vandræðum og hefðu aldrei verið jafn skelkaðir fyrr en á mánudaginn (21. janúar). Búið er að skera á lánalínur bankans. Fyrirhugað útboð Glitnis gekk ekki eftir.“ Sigurður Sturla Pálsson hafi sagt að fólk væri að verða „áhættufælnara og farið að setja sparifé sitt úr peningamarkaðssjóðum í innlán.“ Tryggvi hafi greint frá því að hafin væri vinna við tillögur að lagabreytingum um Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta, en hann væri „mjög veikur og ekki væri gott að vekja athygli á því að svo stöddu.“ Farið hafi verið yfir áðurnefndan ljóta lista og Tryggvi lagt „áherslu á að farið yrði í þá vinnu að gera Seðlabankann „sjókláran“ ef allt færi á versta veg.“ Samtök fjármálafyrirtækja rituðu bréf til ákærða 25. janúar 2008, sem hafði að geyma „áskorun frá stjórn SFF“ til forsætisráðherra. Þar kom fram að stjórnin hafi þann dag fundað um stöðu og horfur í íslensku efnahagslífi, meðal annars um þrönga lausafjárstöðu á alþjóðamörkuðum, sem ljóst væri að hefði veruleg áhrif á nýjar lánveitingar fjármálafyrirtækja, en þau hafi þegar dregið verulega úr þeim. Vegna