Blaðsíða:Dómur Landsdóms nr. 3-2011.pdf/23

Þessi síða hefur ekki verið villulesin

23 mikillar lækkunar á markaðsverði hlutabréfa hér á landi hafi á nokkrum mánuðum „heil landsframleiðsla glatast“. Mikilvægt væri að peningamálastefna tæki mið af þessu, en á undanförnum vikum hafi seðlabankar víða um lönd „gripið til snarpra aðgerða til að sporna við yfirvofandi samdrætti.“ Væri erfitt að sjá að Ísland gæti staðið þetta af sér „með 8-10% raunvaxtastigi, án þess að til harkalegrar lendingar komi fyrir hagkerfið.“ Að mati samtakanna væri brýnt að „vaxtalækkunarferill“ yrði settur af stað og stjórnvöld leituðu leiða til að sporna við samdrætti, meðal annars með aðgerðum til að auka útflutningstekjur. Í minnisblaði, sem Tryggvi Pálsson sendi bankastjórn Seðlabanka Íslands 28. janúar 2008 með yfirskriftinni „hryllingsmynd“, sagði meðal annars eftirfarandi: „Stóru íslensku viðskiptabankarnir eru með eiginfjárstöðu sem veitir viðnámsþrótt og við eðlileg skilyrði teldist hún góð. Bankarnir höfðu góða lausafjárstöðu á liðnu hausti. ... Síðan þá hefur þeim aðeins tekist að afla sér nýs lánsfjár erlendis í afar takmörkuðum mæli og á mun lakari kjörum en áður var. ... Aðstæður á erlendum lánsfjármörkuðum og markaði fyrir skuldatryggingar eru einstaklega erfiðar og bera keim af markaðsbresti. Skuldatryggingarálag Kaupþings er skv. síðustu viðskiptum 595 punktar, Glitnis 440 punktar og Landsbankans 310 punktar. Ef ný lántaka fæst má hafa sem viðmið að kjörin yrðu um 50-70 punktum yfir skuldatryggingarálaginu. Þar sem álögin eru orðin þetta há má efast um að fjárfestar vilji taka þátt í útboðum þar sem áhættan er metin þetta mikil. Ef fjármagn fæst engu að síður á kjörum sem þessum verður bankinn að taka mið af hærri lántökukostnaði í innri verðlagningu sinni. Í því felst að reynt er að hækka vaxtaálag í lánveitingum bankanna og öðrum viðskiptum sem byggja á lántökukostnaði bankans. ... Vandinn núna er sá að hækkun vænts lántökukostnaðar er langt umfram það sem hægt er að mæta með tímabundinni lækkun á vaxtamun og aðhaldi í rekstrarkostnaði. Ef bankarnir næðu að fjármagna sig við núverandi aðstæður er ljóst að vaxtamunur þeirra af erlendum lánum yrði neikvæður. ... Eftir því sem lengri tími líður án þess að skuldatryggingarálag íslensku bankanna lækkar verður erfiðara að sannfæra fjárfesta um að bankarnir geti starfað áfram og greitt af lánum sínum. ... Að loknum rekstraruppgjörum bankanna í þessari viku hlýtur athyglin að beinast að horfum í rekstri þeirra á þessu ári. Sú mynd verður ekki glæsileg og ef fjármögnunarvandinn leysist ekki á næstu mánuðum blasir við hryllingsmynd.“ Seðlabanki Íslands sendi frá sér tilkynningu 28. janúar 2008 um að matsfyrirtækið Moody´s Investors Service hafi lýst yfir að lánshæfiseinkunnir íslenska