Blaðsíða:Dómur Landsdóms nr. 3-2011.pdf/27

Þessi síða hefur ekki verið prófarkalesin

27

samkeppni við fjármálafyrirtækin. Við þessar aðstæður væri óhjákvæmilegt að ítreka að þörf væri á að slaka „á aðhaldi í peningamálum hér innanlands til þess að búa í haginn fyrir þá óhjákvæmilegu aðlögun sem þegar er hafin“. Bent var á að afnám bindiskyldu væri tvímælalaust „aðgerð sem eðlilegt er að grípa til við núverandi aðstæður“ og yrði jafnframt að lækka vexti seðlabankans. Einnig mætti huga að því að taka upp reglur um takmarkaða skattskyldu erlendra aðila og skattafslátt vegna kaupa á hlutabréfum. Rétt væri að athuga hvort viðskiptaráðherra ætti að beita sér fyrir „endurskoðun á gagnsæisstefnu FME þar sem enginn vafi leikur á því að opinberar birtingar á úttektum FME á einstökum fjármálafyrirtækjum draga úr trúverðugleika á fjármálakerfið í heild“, auk þess sem mikilvægt væri að auka „heimildir lífeyrissjóða til að fjárfesta í innlendum félögum“.

Samráðshópur um fjármálastöðugleika og viðbúnað hélt 7. fund sinn 5. febrúar 2008. Í stuttri fundargerð var því lýst að greint hafi verið frá niðurstöðu álagsprófs Fjármálaeftirlitsins fyrir bankana, sem birt yrði næsta dag, tilteknum gögnum hafi verið dreift um þá og getið hafi verið um skuldatryggingarálag þeirra, þar á meðal að„ kjör Glitnis eru að nálgast kjör Kaupþings sem eru hæst.“

Ríkisstjórn Íslands kom saman til funda 1. og 5. febrúar 2008. Samkvæmt fundargerðum var þar ekki rætt um atriði, sem varða málefni fjármálafyrirtækja.

4

Ákærði sendi 7. febrúar 2008 svohljóðandi tölvubréf til utanríkisráðherra, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur: „Ég tel nauðsynlegt að við tvö ásamt fjármálaráðherra fundum með bankastjórn SÍ í dag í kjölfarið á ferð formanns bankastjórnar til London þar sem hann ræddi við matsfyrirtæki og helstu fjármálastofnanir. Legg til að við hittumst kl. 16.30 í dag hjá mér.“ Í málinu liggur fyrir ódagsett orðsending Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur til rannsóknarnefndar Alþingis um „minnisatriði af fundum með bankastjórn Seðlabankans á árinu 2008“, þar sem sagði meðal annars eftirfarandi: „Sýnist sem ég hafi setið alls 6 fundi með fulltrúum Seðlabanka Íslands á því tímabili sem tilgreint er í erindi Rannsóknarnefndar Alþingis. Þann fyrsta 6. febrúar 2008 og þann síðasta 8. júlí 2008. Fundirnir voru haldnir í forsætisráðuneytinu og forsætisráðherra boðaði alltaf til þeirra án þess að tiltekið væri sérstaklega hvað ætti að ræða. Voru fundirnir upplýsingafundir sem fjölluðu fyrst og fremst um framvinduna í vinnu Seðlabankans að því að styrkja gjaldeyrisvaraforðann. Fundirnir ... voru boðaðir tilviljanakennt og með skömmum fyrirvara, misjafnt var hverjir sátu þessa fundi, engin dagskrá lá fyrir á