Blaðsíða:Dómur Landsdóms nr. 3-2011.pdf/3

Þessi síða hefur ekki verið prófarkalesin

3 I 1 Samkvæmt því, sem fram er komið í málinu, er ákærði fæddur 8. apríl 1951. Hann tók stúdentspróf 1971 og lagði síðan stund á háskólanám í Bandaríkjunum, þar sem hann lauk BA prófi í hagfræði 1973, meistaraprófi í alþjóðastjórnmálum 1975 og meistaraprófi í hagfræði 1977. Að námi loknu starfaði hann sem hagfræðingur í alþjóðadeild Seðlabanka Íslands frá 1977 til 1983 og aðstoðarmaður fjármálaráðherra frá 1983 til 1987. Hann átti síðan sæti á Alþingi frá 1987 til 2009 og var á árunum 1991 til 1998 formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Hann var varaformaður Sjálfstæðisflokksins frá 1999 til 2005 og formaður frá því ári til 2009. Eftir kosningar til Alþingis 20. apríl 1991 mynduðu Sjálfstæðisflokkurinn og Alþýðuflokkurinn ríkisstjórn undir forsæti Davíðs Oddssonar 30. sama mánaðar og sat hún til 23. apríl 1995. Þá tók við ríkisstjórn, sem var undir forsæti þess sama og mynduð af Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum. Í þeirri ríkisstjórn tók ákærði sæti sem fjármálaráðherra 16. apríl 1998. Sömu flokkar mynduðu aftur ríkisstjórnir undir forsæti Davíðs Oddssonar að undangengnum alþingiskosningum 8. maí 1999 og 10. maí 2003 og gegndi ákærði þar sama embætti til 15. september 2004. Þann dag tók við ríkisstjórn sömu flokka undir forsæti Halldórs Ásgrímssonar og sat hún til 15. júní 2006, en ákærði var þar aftur fjármálaráðherra til 27. september 2005 þegar hann tók við embætti utanríkisráðherra. Því gegndi hann þar til hann varð 15. júní 2006 forsætisráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, sem lét af störfum 24. maí 2007 þegar við tók ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar undir forsæti ákærða. Meðal þeirra, sem áttu sæti í þeirri ríkisstjórn af hálfu Sjálfstæðisflokksins, var Árni M. Mathiesen, sem var fjármálaráðherra, en af hálfu Samfylkingarinnar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem var formaður þess flokks og gegndi embætti utanríkisráðherra, og Björgvin G. Sigurðsson, sem var viðskiptaráðherra. Þeirri ríkisstjórn var veitt lausn 26. janúar 2009, en hún gegndi störfum til 1. febrúar sama ár. 2 Ákærði mælti 6. október 2008 fyrir stjórnarfrumvarpi á Alþingi til laga um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., þar sem meðal annars voru lagðar til breytingar á ákvæðum laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Tilefni frumvarpsins var einkum yfirvofandi greiðsluþrot þriggja stærstu fjármálafyrirtækja landsins, Glitnis banka hf., Kaupþings banka hf. og