Blaðsíða:Dómur Landsdóms nr. 3-2011.pdf/5

Þessi síða hefur ekki verið prófarkalesin

5 reis um kröfur saksóknarans um heimild til að leggja hald á nánar tilgreind sönnunargögn. Í síðarnefnda málinu var jafnframt tekin afstaða til krafna ákærða um að málið yrði fellt niður eða því vísað frá dómi. Þá krafðist ákærði þess við þingfestingu þessa máls 7. júní 2011 að átta af dómurum Landsdóms vikju sæti í því, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði 10. sama mánaðar. Sem fyrr segir krafðist ákærði þess síðan í þinghaldi 5. september 2011 að málinu yrði vísað frá dómi og var sú krafa að hluta tekin til greina með úrskurði 3. október sama ár. Aðalmeðferð málsins hófst loks 5. mars 2012 og voru þar teknar munnlegar skýrslur af ákærða og 40 vitnum, en að loknum munnlegum málflutningi 16. sama mánaðar var það eins og áður greinir tekið til dóms. II 1 Almenn löggjöf um viðskiptabanka var fyrst sett með lögum nr. 86/1985, en fram að því höfðu gilt sérstök lög um hvern þeirra. Við setningu þessara laga voru starfandi þrír viðskiptabankar í eigu ríkisins, Búnaðarbanki Íslands, Landsbanki Íslands og Útvegsbanki Íslands, og fjórir hlutafélagsbankar, sem voru Alþýðubankinn hf., Iðnaðarbanki Íslands hf., Samvinnubanki Íslands hf. og Verslunarbanki Íslands hf. Samkvæmt lögum nr. 7/1987 var stofnaður hlutafélagsbanki um Útvegsbanka Íslands, sem var í byrjun í eigu ríkisins, en samkvæmt 10. gr. laganna var heimilt að selja hlutafé þess í félaginu. Það var gert í júní 1989 og rann Útvegsbanki Íslands hf. í framhaldi af því saman við Alþýðubankann hf., Iðnaðarbanka Íslands hf. og Verslunarbanka Íslands hf., en sameinaða félagið fékk heitið Íslandsbanki hf. Samvinnubanki Íslands hf. var sameinaður Landsbanka Íslands á árinu 1990. Á grundvelli laga nr. 50/1997 um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands liðu þessir síðustu ríkisviðskiptabankar undir lok og tóku samnefndir hlutafélagsbankar til starfa 1. janúar 1998, sbr. 3. gr. laganna. Í upphafi voru þeir að fullu í eigu ríkisins og voru settar skorður með 6. gr. laganna við sölu hlutafjár í þeim. Þá var Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf. stofnaður með lögum nr. 60/1997 með því að Fiskveiðasjóður Íslands, Iðnlánasjóður, Útflutningslánasjóður og Iðnþróunarsjóður voru í meginatriðum sameinaðir. Sá banki var jafnframt í eigu ríkisins, en með 1. gr. laga nr. 167/1998 var því heimilað að selja allt hlutafé í honum. Það mun hafa verið gert á árunum 1998 og 1999, en Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf. var á árinu 2000 sameinaður Íslandsbanka hf., sem fékk á árinu 2006 heitið Glitnir banki hf. Með 1. gr. laga nr. 93/1999 og 1. gr. laga nr. 70/2001 voru gerðar breytingar