Blaðsíða:Frumvarp Stjórnlagaráðs.pdf/13

Þessi síða hefur verið prófarkalesin

14. gr.

Skoðana- og tjáningarfrelsi.

Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar og eiga rétt á að tjá hugsanir sínar.

Rit­skoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða. Þó má setja tjáningarfrelsi skorður með lögum til verndar börnum, öryggi, heilsu, réttindum eða mann­orði annarra, svo sem nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi.

Stjórnvöld skulu tryggja aðstæður til opinnar og upplýstrar umræðu. Óheimilt er að skerða aðgang að netinu og upplýsingatækni nema með úrlausn dómara og að uppfylltum sömu efnisskilyrðum og eiga við um skorður við tjáningarfrelsi.

Hver og einn ber ábyrgð á framsetningu skoðana sinna fyrir dómi.

15. gr.

Upplýsingaréttur.

Öllum er frjálst að safna og miðla upplýsingum.

Stjórnsýsla skal vera gegnsæ og halda til haga gögnum, svo sem fundargerðum, og skrá­setja og skjalfesta erindi, uppruna þeirra, ferli og afdrif. Slíkum gögnum má ekki eyða nema sam­kvæmt lögum.

Upplýsingar og gögn í fórum stjórnvalda skulu vera tiltæk án undandráttar og skal með lög­um tryggja aðgang almennings að öllum gögnum sem opinberir aðilar safna eða standa straum af. Listi yfir öll mál og gögn í vörslu hins opinbera, uppruna þeirra og innihald, skal vera öllum aðgengilegur.

Söfnun, miðlun og afhendingu gagna, geymslu þeirra og birtingu má aðeins setja skorður með lögum í lýðræðislegum tilgangi, svo sem vegna persónuverndar, friðhelgi einkalífs, örygg­is ríkisins eða lögbundins starfs eftirlitsstofnana. Heimilt er í lögum að takmarka aðgang að vinnu­skjölum enda sé ekki gengið lengra en þörf krefur til að varðveita eðlileg starfsskilyrði stjórn­valda.

Um gögn sem lögbundin leynd hvílir yfir skulu liggja fyrir upplýsingar um ástæður leynd­ar og takmörkun leyndartíma.

16. gr.

Frelsi fjölmiðla.

Frelsi fjölmiðla, ritstjórnarlegt sjálfstæði þeirra og gegnsætt eignarhald skal tryggja með lög­um.

Vernd blaðamanna, heimildarmanna og uppljóstrara skal tryggja í lögum. Óheimilt er að rjúfa nafnleynd án samþykkis þess sem veitir upplýsingar nema við meðferð sakamáls og sam­kvæmt dómsúrskurði.

17. gr.

Frelsi menningar og mennta.

Tryggja skal með lögum frelsi vísinda, fræða og lista.

18. gr.

Trúfrelsi.

Öllum skal tryggður réttur til trúar og lífsskoðunar, þar með talinn rétturinn til að breyta um trú eða sannfæringu og standa utan trúfélaga.

Öllum er frjálst að iðka trú, einslega eða í samfélagi með öðrum, opinberlega eða á einka­ vett­vangi.

Frelsi til að rækja trú eða sannfæringu skal einungis háð þeim takmörkunum sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi. 11