Blaðsíða:Frumvarp Stjórnlagaráðs.pdf/23

Þessi síða hefur verið prófarkalesin

Forseti Íslands er kosinn í leynilegri atkvæðagreiðslu þeirra er kosningarétt hafa til Al­þing­is. Forsetaefni skal hafa meðmæli minnst eins af hundraði kosningabærra manna og mest tveggja af hundraði. Kjósendur skulu raða frambjóðendum, einum eða fleirum að eigin vali, í forgangsröð. Sá er best uppfyllir forgangsröðun kjósenda, eftir nánari ákvæðum í lögum, er rétt kjörinn forseti. Ef aðeins einn maður er í kjöri, er hann rétt kjörinn án atkvæðagreiðslu. Að öðru leyti skal ákvarða með lögum um framboð og kosningu forseta Íslands.

79. gr.

Kjörtímabil.

Kjörtímabil forseta Íslands hefst 1. ágúst og endar 31. júlí að fjórum árum liðnum. For­seta­kjör fer fram í júní- eða júlímánuði það ár, þegar kjörtímabil endar. Forseti skal ekki sitja leng­ur en þrjú kjörtímabil.

80. gr.

Eiðstafur.

Forseti Íslands undirritar eiðstaf að stjórnarskránni þegar hann tekur við störfum.

81. gr.

Starfskjör.

Forseta Íslands er óheimilt að hafa með höndum önnur launuð störf á meðan hann gegnir em­bætti. Sama gildir um störf í þágu einkafyrirtækja og opinberra stofnana þótt ólaunuð séu.

Ákveða skal með lögum greiðslur af ríkisfé til forseta. Óheimilt er að lækka greiðslur þessar til for­seta á meðan kjörtímabil hans stendur.

82. gr.

Staðgengill.

Geti forseti Íslands ekki gegnt störfum um sinn vegna heilsufars eða af öðrum ástæðum fer forseti Alþingis með forsetavald á meðan.

83. gr.

Fráfall.

Falli forseti frá eða láti af störfum áður en kjörtímabili er lokið skal kjósa nýjan forseta til 31. júlí á fjórða ári frá kosningu hans.

84. gr.

Ábyrgð.

Forseti Íslands verður ekki sóttur til refsingar nema með samþykki Alþingis.

Forseta má leysa frá embætti áður en kjörtímabili er lokið, ef það er samþykkt með meiri­hluta atkvæða við þjóðaratkvæðagreiðslu sem til er stofnað að kröfu Alþingis, enda hafi hún hlot­ið fylgi 3/4 hluta þingmanna. Þjóðaratkvæðagreiðslan skal þá fara fram innan tveggja mán­aða frá því að krafan um hana var samþykkt á Alþingi og gegnir forseti ekki störfum frá því að Alþingi gerir samþykkt sína þar til úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar eru kunn.

85. gr.

Náðun og sakaruppgjöf.

Forseti Íslands getur náðað menn og veitt almenna uppgjöf saka að tillögu ráðherra. Ráð­herra getur hann þó ekki leyst undan refsingu, sem dómstólar hafa dæmt vegna ráð­herra­ábyrgð­ar, nema með samþykki Alþingis. 21