Blaðsíða:Frumvarp Stjórnlagaráðs.pdf/25

Þessi síða hefur verið prófarkalesin

91. gr.

Vantraust.

Leggja má fram á Alþingi tillögu um vantraust á ráðherra. Í tillögu um vantraust á for­sæt­isráðherra skal felast tillaga um eftirmann hans.

Ráðherra er veitt lausn úr embætti ef meirihluti þingmanna samþykkir tillögu um van­traust á hann. Ríkisstjórn er veitt lausn ef meirihluti þingmanna samþykkir tillögu um van­traust á forsætisráðherra.

92. gr.

Starfsstjórn.

Eftir að forsætisráðherra hefur verið veitt lausn ásamt ríkisstjórn sinni situr hún áfram sem starfsstjórn uns ný ríkisstjórn er skipuð. Sama gildir ef þing er rofið. Ráðherrar í starfs­stjórn taka aðeins þær ákvarðanir sem nauðsynlegar eru til rækslu starfa þeirra.

93. gr.

Upplýsinga- og sannleiksskylda.

Ráðherra er skylt að veita Alþingi eða þingnefnd allar upplýsingar, skjöl og skýrslur um mál­efni sem undir hann heyra, nema leynt skuli fara samkvæmt lögum.

Þingmenn eiga rétt á upplýsingum frá ráðherra með því að bera fram fyrirspurn um mál eða óska eftir skýrslu, samkvæmt nánari fyrirmælum í lögum.

Upplýsingar sem ráðherra veitir Alþingi, nefndum þess og þingmönnum skulu vera rétt­ar, viðeigandi og fullnægjandi.

94. gr.

Skýrsla ríkisstjórnar til Alþingis.

Árlega leggur ríkisstjórn fyrir Alþingi skýrslu um störf sín og framkvæmd ályktana þings­ins.

Ráðherra getur gert grein fyrir málefni sem undir hann heyrir með skýrslu til Alþingis.

95. gr.

Ráðherraábyrgð.

Ráðherrar bera lagalega ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Bóki ráðherra andstöðu við ákvörðun ríkisstjórnar ber hann þó ekki ábyrgð á henni. Ábyrgð vegna embættisbrota þeirra skal ákveðin með lögum.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis ákveður, að undangenginni könnun, hvort hefja skuli rannsókn á meintum embættisbrotum ráðherra. Nefndin skipar saksóknara sem ann­ast rannsóknina. Hann metur hvort niðurstaða rannsóknarinnar sé nægileg eða líkleg til sak­fellingar og gefur þá út ákæru og sækir málið fyrir dómstólum. Nánar skal kveðið á um rann­sókn og meðferð slíkra mála í lögum.

96. gr.

Skipun embættismanna.

Ráðherrar og önnur stjórnvöld veita þau embætti sem lög mæla.

Hæfni og málefnaleg sjónarmið skulu ráða við skipun í embætti.

Þegar ráðherra skipar í embætti dómara og ríkissaksóknara skal skipun borin undir for­seta Íslands til staðfestingar. Synji forseti skipun staðfestingar þarf Alþingi að samþykkja skip­unina með 2/3 hlutum atkvæða til að hún taki gildi.

Ráðherra skipar í önnur æðstu embætti, eins og þau eru skilgreind í lögum, að fenginni til­ögu sjálfstæðrar nefndar. Velji ráðherra ekki í slíkt embætti einn þeirra sem nefndin telur hæf­asta er skipun háð samþykki Alþingis með 2/3 hlutum atkvæða.

Forseti Íslands skipar formann nefndarinnar. Um nánari skipan hennar og störf skal mælt fyrir í lögum.

Í lögum má kveða á um að í tiltekin embætti megi einungis skipa íslenska ríkisborgara. Krefja má embættismann um eiðstaf að stjórnarskránni. 23