Blaðsíða:Frumvarp Stjórnlagaráðs.pdf/35

Þessi síða hefur verið prófarkalesin

Athugasemdir við einstaka kafla og greinar frumvarpsins.

Um I. kafla.

Í þessum kafla er fjallað um þær grundvallarreglur sem íslenskt stjórnskipulag byggir á.

Ekki er gert ráð fyrir breytingum á megineinkennum núgildandi stjórnarskrár. Stjórnarform landsins er lýðveldi, haldið er í þingræðisskipan og áfram byggt á þrígreiningu ríkisvaldsins. Til viðbótar við framangreint er hér að finna ákvæði sem að hluta til eru ný og fjalla um yfirráðasvæði ríkisins, ríkisborgararétt og skyldur stjórnvalda sem og borgara.

Ísland er lýðveldi. Í því felst almennt séð að þjóðhöfðingi er kosinn af almenningi og kjörið þjóðþing fer með löggjafarvald eða er a.m.k. aðalhandhafi þess.[1] Talsverðar umræður urðu í Stjórnlagaráði um stöðu forseta Íslands, nánar tiltekið hvort auka ætti völd hans frá því sem nú er eða skilgreina hlutverk hans einkum sem verndara menningar. Um þetta er fjallað nánar í almennum athugasemdum við V. kafla um forseta Íslands og vísast þangað.

Þingræði er meðal megineinkenna á íslenskri stjórnskipun. Í því hugtaki felst að þeir einir geti setið í ríkisstjórn sem meirihluti þjóðþingsins vill styðja eða a.m.k. þola í embætti. Hér á landi helgast þingræði fyrst og fremst af stjórnskipunarvenju enda þótt það eigi sér stoð í því orðalagi 1. gr. stjórnarskrárinnar að Ísland sé lýðveldi með „þingbundinni stjórn“.[2] Þingræði veldur óumflýjanlega nokkurri samþættingu milli framkvæmdar- og löggjafarvalds, m.a. er fremur leitast við að skapa samstöðu en togstreitu milli þessara tveggja valdhafa. Ýmsir þættir í þróun valda- og stjórnkerfis hér á landi hafa ýft upp og ýkt átök stjórnarandstöðu annars vegar og meirihluta þings og ríkisstjórnar hins vegar. Jafnframt er ábyrgð valdhafa á köflum óljós vegna óskýrra valdmarka auk þess sem framkvæmdarvald hefur eflst á kostnað löggjafarvalds.

Talsvert var rætt í Stjórnlagaráði um hvort afnema ætti þingræðisfyrirkomulagið og taka upp svokallað forsetaræði eða forsetaþingræði þar sem oddviti framkvæmdarvaldsins er kosinn beint. Flest Evrópuríki eru nú þingræðisríki, en Frakkland er undantekning með svokallað forsetaþingræði (e. semi-presidential government).

Niðurstaða Stjórnlagaráðs var sú að festa þingræðisregluna í sessi. Í 1. gr. þessa kafla er hún stjórnarskrárbundin með orðunum „Ísland er lýðveldi með þingræðisstjórn“. Jafnframt eru gerðar margar smærri breytingar innan þingræðiskerfisins sem breyti jafnvæginu til betri vegar, styrki þingið aftur, torveldi misbeitingu valds og vinni gegn ofríki meirihlutans.

Í núgildandi stjórnarskrá er greint á milli þriggja þátta ríkisvalds, í samræmi við kenningar franska stjórnspekingsins Montesquieu. Innan Stjórnlagaráðs var rætt um að samfélagið hafi þróast mjög mikið frá hans dögum og fjölmiðlar um árabil verið nefndir fjórða valdið, auk þess sem fjármagni fylgi einnig óneitanlegt vald. Í frumvarpi Stjórnlagaráðs er áfram byggt á þrígreiningu ríkisvaldsins en áhersla lögð á valddreifingu almennt.

Um 1. gr.

Breytt ákvæði 1. gr. núgildandi stjórnarskrár.

Í ákvæðinu er orðalagsbreyting frá núverandi ákvæði, „þingbundinni stjórn“ verður nú þingræðisstjórn. Orðin „þingbundin stjórn“ koma fyrst inn í stjórnarskrá árið 1920, en talið er að

  1. Sjá Gunnar G. Schram 1999:24.
  2. Sjá Skýrslu stjórnlaganefndar 1 2011:66 og áfram, og 2 2011:2529.

33