Blaðsíða:Frumvarp Stjórnlagaráðs.pdf/45

Þessi síða hefur verið prófarkalesin

lendinga í fjölmiðlum en ekki „við“ þá.[1] Þrátt fyrir þessa stöðu tungumálsins lítur Stjórnlagaráð ekki svo á að hún réttlæti kröfu um kennslu á eigin tungumáli í skólum eða vinnustöðum landsins.

Með frumvarpi þessu leggur Stjórnlagaráð til að orðinu „mismununar“ sé bætt í 1. mgr. 6. gr., til samræmis við 26. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Rætt var um að nota orðið „manngreinarálit“ en samkvæmt ábendingu frá sérfræðingi var ákveðið að nota orðið mismunun sem þýðingu á enska orðinu „discrimination“.

Þetta ákvæði á að túlka sem svo að það nái til bæði beinnar og óbeinnar mismununar. Í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 er bein mismunun skilgreind sem það þegar einstaklingur fær óhagstæðari meðferð en annar af gagnstæðu kyni við sambærilegar aðstæður. Óbein mismunun er þegar hlutlaust skilyrði, viðmið eða ráðstöfun kemur hlutfallslega verr við annað kynið nema slíkt sé viðeigandi, nauðsynlegt eða réttlætanlegt vegna hlutlægra þátta óháð kyni. Hér skal því bætt við að skilyrði, viðmið eða ráðstafanir eru oft ekki hlutlaus, þótt þau virðist vera það á yfirborðinu. Enn fremur skal bent á að framangreind viðmið má yfirfæra á mismunun á grundvelli annarra breytna en kyns.

Hugtökin „aldur“ og „búseta“ koma inn í frumvarp þetta að tillögu stjórnlaganefndar. Tilvísanir til aldurs má t.d. finna í 6. gr. finnsku stjórnarskrárinnar sem tiltekur aðeins níu breytur og er aldur þar talinn næstfyrstur á eftir kynferði. Í réttindasáttmála Evrópusambandsins er heil grein tileinkuð réttindum aldraðra. Þar segir í 25. gr. að öll aðildarríki skuli virða réttindi aldraðra til að lifa sjálfstæðu lífi með reisn og taka þátt í félagslegum og menningarlegum atburðum.[2]

Réttarstaða aldraðra hefur verið gagnrýnd og mannréttindum þeirra talið ábótavant, t.d. er fátækt hlutfallslega meiri á meðal eldra fólks en annarra aldurshópa. Tilraun var gerð af leiðtogum heims til að stemma stigu við slæmri stöðu aldaðra á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Madrid árið 2002 þegar sett var saman áætlunin „International Plan of Action on Ageing“. Var því m.a. heitið að dregið skyldi úr fátækt meðal aldraðra um helming fyrir árið 2015.[3] Telur Stjórnlagaráð að sú ákvörðun að tiltaka aldur sérstaklega í jafnræðisreglu frumvarps þessa sé í takt við framangreinda þróun á alþjóðavísu.

Í umræðum Stjórnlagaráðs var áhersla lögð á aðstæður á elliheimilum en ráðið telur enn fremur að bann við mismunun á grundvelli aldurs geti girt fyrir að heimilt sé að hafna hæfasta umsækjanda í starf á vegum hins opinbera vegna þess að viðkomandi er yfir 60 ára eða á barneignaraldri. Ekki er litið svo á að ákvæðið takmarki heimildir löggjafans til að setja lög til verndar börnum og ungmennum, svo sem lög um lágmarksaldur til áfengiskaupa, enda er þar um almannahagsmuni að ræða og ekki mismunun gegn tilteknum einstaklingi. Á sama hátt þykir eðlilegt að stjórnarskráin kveði á um að forseti skuli vera eldri en 35 ára og að kosningaréttur sé bundinn við 18 ára aldurstakmark.

Bann við mismunun á grundvelli búsetu er bætt inn í jafnræðisákvæði frumvarps þessa. Rætt var í Stjórnlagaráði hvort slík regla myndi leggja of þungar byrðar á herðar ríkisins um að sinna hinum dreifðu byggðum landsins með sama hætti og þéttbýliskjörnum þess. Hins vegar þykir þörf á að tiltaka bann við mismunun á grundvelli búsetu þrátt fyrir að ljóst sé að heimila verði yfirvöldum ákveðið svigrúm í ljósi kostnaðarsjónarmiða. Búseta er enda þess eðlis að einstaklingar hafa val. Ákvæðið er því ekki talið fela í sér að einstaklingar geti valið að búa á hversu afskekktum stað sem er en krafist sambærilegrar þjónustu og í helstu þéttbýliskjörnum landsins. Sömuleiðis lítur Stjórnlagaráð svo á að ákvæðið girði ekki fyrir heimildir löggjafans

  1. Sjá Kovacs 2009.
  2. Sjá grundvallarsáttmála Evrópusambandsins.
  3. Sjá Sameinuðu þjóðirnar 2008.

43