Blaðsíða:Frumvarp Stjórnlagaráðs.pdf/7

Þessi síða hefur verið prófarkalesin

Forseti Alþingis

Með ályktun Alþingis frá 24. mars 2011 var stjórnlagaráði falið að gera tillögur um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Þær tillögur liggja nú fyrir í formi frumvarps til nýrrar stjórnarskrár og afhendist það forseta Alþingis hér með. Frumvarpið var samþykkt ein­róma með atkvæðum allra ráðsfulltrúa á síðasta fundi ráðsins sem lauk miðvikudaginn 27. júlí síðastliðinn.

Stjórnlagaráði var meðal annars falið að fjalla um skýrslu stjórnlaganefndar, sem kosin var af Al­þingi 16. júní 2010. Hlutverk stjórnlaganefndar var að undirbúa þau verkefni sem síðar voru fal­in stjórnlagaráði, meðal annars með því að halda þjóðfund um stjórnarskrármálefni og safna gögn­um og upplýsingum um þau og leggja fram hugmyndir um breytingar á stjórnarskránni. Stjórnl­aganefnd hélt þjóðfund 6. nóvember 2010, þar sem þúsund þátt­takendur voru valdir með úrtaki úr þjóðskrá, og afhenti nefndin stjórnlagaráði skýrslu sína og tillögur á fyrsta fundi ráðsins, 6. apríl síðastliðinn. Frumvarp stjórnlagaráðs er því afrakstur mikillar vinnu á löng­um ferli.

Fulltrúar í stjórnlagaráði eru fjölbreyttur hópur með ólíkar skoðanir, menntun og reynslu. Hver og einn hefur tekið afstöðu til mála á eigin forsendum. Almenningur hefur átt greið­an aðgang að verkinu, fyrst og fremst með athugasemdum og innsendum erindum á vef­setri ráðsins. Þannig hefur varðveist sú hugmynd að almenningur kæmi að endurskoðun stjórn­ar­skrár­innar. Frumvarp stjórnlagaráðs hefur því mótast smám saman í samræðum milli full­ trúa inn­byrðis og opnum skoðanaskiptum við samfélagið. Stjórnlagaráð afhendir nú þingi og þjóð frum­varpið. Skýringar með frumvarpinu verða afhentar Alþingi í næstu viku og endur­ spegla um­ræðuna innan ráðs og utan.

Stjórnlagaráð væntir þess að sú opna umræða sem fram hefur farið á undanförnum mánuð­um um stjórnarskrármál haldi áfram. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að breytingar á stjórnar­skrá séu framvegis bornar undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjun­ar. Fulltrúar í stjórnlagaráði eru einhuga um að veita beri landsmönnum öllum færi á að greiða atkvæði um nýja stjórnarskrá áður en Alþingi afgreiðir frumvarpið endanlega. Komi fram hugmyndir um breytingar á frumvarpi stjórnlagaráðs lýsa fulltrúar í stjórnlagaráði sig reiðu­búna til að koma aftur að málinu áður en þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram.

Reykjavík, 29. júlí 2011,

Salvör Nordal
formaður
Andrés Magnússon Ari Teitsson

5