28
ar, sérhvert fótspor hennar var blóði drifið; en hún sá ekkert og fann ekkert, unz hún vissi til þess óljóst, eins og í draumi, að hún var komin yfir um, og maður nokkur var að hjálpa henni upp árbakkann.
„Þú ert dugandi stúlka, hver sem þú ert“, sagði maðurinn. — Elísa þekkti manninn, hann átti bújörð, ekki langt frá hennar gamla heimili.
„Ó, frelsið þér mig, frelsið þér mig, komið þér mér undan!“ sagði Elísa. „Barnið mitt, drengurinn sá arna, hann seldi hann! þarna er eigandi hans“, og hún benti á Kentucky-ströndina. „Ó, Þér eigið líka lítinn dreng“.
„Það á eg“, sagði maðurinn, og hjálpaði henni upp hinn bratta árbakka.
„Eg segi að þú sért dugleg stúlka; mér líkar áræðið, þar sem eg sé það“.
Þegar þau voru komin upp á árbakkann, nam hann staðar. „Eg hefði gjarnan viljað gjöra eitthvað fyrir þig“, sagði hann, „en það er enginn staður, sem eg gæti farið með þig á; það bezta, sem eg get ráðlagt þér er að fara þangað“, og hann benti á hvítt hús, sem stóð eitt sér út frá aðal stræti þorpsins. Farðu þangað, þar er gott fólk, það er engin hætta, sem þau eigi geti hjálpað þér úr — þau eru vön þessu og þvíumlíku“.
„Drottinn blessi yður“. sagði Elísa alvarleg. „Ó, þér segið það engum!“
„Haltu áfram stúlka mín! hvern mann heldurðu mig?