Blaðsíða:Harriet Beecher Stowe - Tómas frændi.djvu/40

Þessi síða hefur verið staðfest

31

„Og hvernig lög eru nú það?“ Þau banna þó ekki að veita þessum veslingum húsaskjól eina nótt, eða hvað? og að gefa þeim eitthvað ætt að borða, og einhverja flík, og lofa þeim að halda áfram ferð sinni í friði?

„Því ekki? jú, einmitt það, góða mín! það væri að hjálpa og liðsinna þeim, sérðu!“

Frú Bird var hæglát kona, með blíð, blá augu, og hinn yndislegasta og mjúkasta málróm. Maðurinn hennar og börnin voru allur heimur hennar, og í þeim heimi réði hún ríkjum meira með bænum og fortölum, heldur en með skipunum og röksemdaleiðslu.

Við þetta tækifæri stóð frúin upp úr sæti sínu, kafrjóð í kinnum, og gekk til mannsins síns, mjög einbeitt í bragði, og sagði með föstum, ákveðnum málróm:

„Jón, eg vil fá að vita, hvort þér finnast þessi lög vera rétt eða kristileg?“

„Þú ætlar þó ekki að skjóta mig, María, ef eg segi að mér þyki það?“

„Eg hefði aldrei hugsað þetta um þig, Jón, þú hefur þó ekki greitt atkvæði með þessum lögum?“

„Jú, það gjörði eg, minn fagri stjórnmálagarpur“.

„Þú ættir að skammast þín, Jón! Veslings húsviltir, heimilislausir aumingjar, það eru svívirðileg, guðlaus lög, og eg fyrir mitt leyti skal brjóta þau, undir eins og eg fæ tækifæri til þess; og eg vona að það líði ekki á löngu þangað til eg fæ það!