VIII. Á meðal vina.
Í þessum svifum kom Kudjó gamli, svertingja-verkstjórinn, inn um dyrnar, og bað frúna að koma fram í eldhúsið.
Eptir stundarkorn kom frúin inn aptur og sagði í alvarlegum málróm: „Jón, eg vildi óska að þú kæmir snöggvast fram.“
Hann lagði frá sér blöðin og gekk fram í eldhúsið; hann hrökk við, öldungis forviða, er hann leit það, er mætti auga hans þar.
Ung og grannvaxin kona lá í öngviti á tveim stólum, fötin hennar voru frosin og rifin, hún var skólaus, sokkarnir hennar voru allir rifnir og tættir, og blóðið lagaði úr fótum hennar. Af útliti hennar öllu mátti helzt ráða, að hún væri ambátt.
„Veslings manneskjan!“ sagði frú Bird. Þá leit stúlkan upp, stórum dökkum augum, og horfði á frú Bird eins og í leiðslu. Allt í einu kom angistarsvipur á andlit hennar, hún þaut upp og sagði: „Harry, Harry, hafa þeir náð honum!“
Drengurinn hljóp þá frá Kudjó gamla til móður sinnar. „Ó, hann er hér, hann er hér.“ sagði hún. „Ó, frú,“ sagði hún, eins og í hálfgjörðu æði, við frú Bird. „Skjótið þér skjólshúsi yfir okkur, látið þér hann ekki taka hann.“
34