Blaðsíða:Harriet Beecher Stowe - Tómas frændi.djvu/47

Þessi síða hefur verið staðfest

IX. Miðnætur ferð.

Frú Bird og maður hennar gengu aptur til stofunnar. Hún settist í ruggustólinn sinn fyrir framan arninn, og ruggaði sér þungt hugsandi fram og aptur, en maður hennar gekk um gólf og var að velta einhverju fyrir sér.

Hann nam loks staðar fyrir framan konu sína og sagði: „Ég segi þér satt, hún verður að komast héðan burtu nú í nótt. Maðurinn verður hér í hælunum á henni með morgni í fyrstu birtingu.“

„Í nótt, hvernig er það mögulegt, og hvert?“

„Ég veit vel, hvert hún ætti að komast,“ sagði hann og fór að fara í stígvélin sín. „Sjáðu til“, sagði hann, „hann gamli Trompe vinur minn, er kominn frá Kentucky, og hefur gefið öllum þrælunum sínum frelsi, og keypt land sjö mílur upp með fljótinu hérna inni í skóginum, og þangað kemur enginn nema hann eigi brýnt erindi, og það er staður, sem ekki verður fundinn í flýti. Þar væri hún óhult, en það versta er, að þangað getur enginn flutt hana í nótt, nema ég sjálfur.

„Því ekki það? Kudjó er afbragðs vagnstjóri.“

„Já, já, en það hjálpar ekki; það verður að fara tvisvar yfir ána, og þar sem farið er yfir hana í seinna sinnið, er hættulegt að fara, nema fyrir mann, sem er eins kunnugur eins og

38