51
„Tómas", sagði hún, „ég kom til —“ henni varð litið á hinn þögula hóp, og hún settist niður á stól og byrgði andlitið í höndum sér.
„Ekki núna, frú, ekki núna, ekki núna!“ sagði Klóa frænka og grét nú hástöfum, og í nokkur augnablik grétu þau öll.
„Kæri Tómas minn!“ sagði frúin, „ég get ekkert gefið þér, sem þú hefur gagn af; þó ég gæfi þér peninga, þá yrðu þeir teknir af þér. En því lofa ég þér hátíðlega, frammi fyrir augliti drottins, að eg skal halda spurnum fyrir þér og kaupa þig aptur, strax þegar ég eignast peninga til þess; treystu guði þangað til.“
Drengirnir hrópuðu nú upp yfir sig að Haley kæmi. Dyrunum var hrundið upp og Haley var þar kominn í mjög illu skapi, hann hafði verið á reið alla nóttina, og ekki bætti það um, hve hraparlega honum hafði mistekizt að ná í Elísu.
„Komdu,“ sagði hann, „ertu tilbúinn?“ „Yðar þjónn, frú!“ sagði hann og tók ofan, þegar hann kom auga á frú Shelby.
Tómas stóð auðmjúkur upp, til að fylgja hinum nýja húsbónda sínum, og lypti þungu kistunni sinni á herðar sér.
Kona hans tók yngsta barnið á handlegg sér, til að fylgja honum út að vagninum, og hin börnin fylgdu öll grátandi á eptir.
Hópur af ungum og gömlum hafði safnazt utan um vagninn, allir voru komnir til að kveðja Tómas; allir höfðu virt