Blaðsíða:Harriet Beecher Stowe - Tómas frændi.djvu/76

Þessi síða hefur verið staðfest

67

svört. Ophelíu frænku minni mundi þykja vænt um þig, ef þú værir gott barn.“

Topsý hló kuldahlátur; það gjörði hún ætíð, er hún vildi ekki trúa einhverju.

„Heldurðu það ekki?“ sagði Eva.

„Nei, hún hefur óbeit á mér af því eg er svertingi. Henni þætti ekkert verra að hafa nöðru nálægt sér. Það getur engum þótt vænt um svertingja. En mér stendur á sama,“ sagði Topsý og tók til að blístra.

„Ó, Topsý, veslings Topsý, mér þykir vænt um þig,“ sagði Eva, sem réði nú ekki við tilfinningar sínar, og lagði litlu, hvítu höndina á herðarnar á Topsý. „Mér þykir vænt um þig, af því þú átt engan pabba og enga mömmu, og enga frændur! Mér þykir vænt um þig, og eg vil að þú verðir góð stúlka. Eg er ekki frísk, Topsý; eg er mjög veik, og eg hugsa að eg lifi ekki mjög lengi, og það hryggir mig sárlega að þú skulir vera svona óþekk. Eg vildi óska að þú vildir reyna til vera gott barn mín vegna; eg verð að eins stutta stund með þér úr þessu.“

Stóru, kringlóttu, skrítilegu augun í svarta barninu fylltust tárum; stórir bjartir dropar féllu þunglega niður á hvítu höndina. Já, á þessu augnabliki hafði geisli trúar og kærleika þrengt sér inn í þessa heiðnu sál! Hún grúfði höfuðið ofan að knjám sér og grét sáran; en hið fagra barn með gullna hárið og bláu augun, sem laut yfir hana, líktist engli, er væri að snúa syndara frá villu hans vegar.