Blaðsíða:Harriet Beecher Stowe - Tómas frændi.djvu/78

Þessi síða hefur verið staðfest

XVI. Blómið visnar.

Dagar, vikur, mánuðir liðu og hin barnslega vinátta á milli Evu og Tómasar varð æ innilegri. Tómas elskaði Evu, sem væri hún guðdómleg vera, honum virtist hið fagra barn vera hátt upp hafið yfir allt hið jarðneska.

Það var ákafur hiti þetta sumar, og St. Clare hafði flutt sig með fólk sitt af búgarði sínum nær sjávarströndinni, til þess að njóta hinnar svalandi sjávargolu.

Landsetur St. Clares var nálægt vík einni við sjóinn. Umhverfis voru svalir úr bambusviði, er vissu á alla vegu út að garðinum og grænum grasflötum.

Einn dag sátu þau Eva og Tómas á litlum grasbekk í garðinum niður við sjóinn. Það var sunnudagskvöld og biblían lá opin á knjám Evu.

„Tómas frændi,“ sagði Eva, „eg er á förum héðan“.

„Hvert, ungfrú Eva?“

Barnið reis úr sæti sínu og rétti hönd sína mót himni. Kvöldroðinn glóði á hinum gullnu hárlokkum og varpaði himneskri geisladýrð á andlit hennar, þar sem hún stóð og horfði alvarlegum augum til himins.

„Eg fer þangað“ sagði hún, „til góðu englanna, Tómas frændi, það verður ekki langt þangað til“.

69