Blaðsíða:Harriet Beecher Stowe - Tómas frændi.djvu/84

Þessi síða hefur verið staðfest

75

Evu hnignaði dag frá degi; það var engum efabundið, hver endalokin yrðu.

Tómas frændi dvaldi mikinn hluta tímans í herbergi Evu. Barnið þjáðist mjög af þreytu og óþreyju, og henni var hvíld í því að hún væri borin. Og það var hið mesta yndi Tómasar að bera hina litlu veiku vinstúlku sína ýmist fram og aptur um herbergið, eða út á veggsvalimar; og þegar hinn upplífgandi morgunblær lék um garðinn, og barnið var með hressasta móti, þá leiddi hann hana við hönd sér undir trjánum í garðinum, eða þau settust á einhvern grasbekkinn, þar sem þau svo opt höfðu setið, og hann söng fyrir hana ýms uppáhalds lög hennar.

Loks kom endirinn. Faðir hennar var í herberginu við rúmið hennar. „Ó, að hún vaknaði og talaði til mín einu sinni enn!“ sagði hann og laut yfir hana: „Eva, yndið mitt!“

Stóru, bláu augun opnuðust, og bros lék um varimar. Hún reyndi til að reisa við höfuðið og tala.

„Þekkirðu mig, Eva?“ sagði faðir hennar.

„Elsku pabbi,“ sagði barnið og vafði handleggjunum um hálsinn á honum, en á næsta augnabliki hnigu þeir máttvana niður; hún brauzt um til að reyna að ná andanum, og teygði upp litlu hendurnar.

„Ó, guð minn góður, þetta er hræðilegt!“ sagði St. Clare, og sneri sér undan, frá sér numinn af angist. Hann þreif í höndina á Tómasi í einhverju ofboði. „Ó, Tómas, Tómas, þetta er ógurlegt, það gjörir útaf við mig!“