Blaðsíða:Harriet Beecher Stowe - Tómas frændi.djvu/87

Þessi síða hefur verið staðfest

78

„Eg faldi mig á bak við veggtjöldin, þegar frúin var að tala við mennina; það á að selja okkur eptir fáa daga á uppboði.“

„Verði guðs vilji,“ sagði Tómas, krosslagði hendurnar á brjóstinu og stundi þungan.

Tómas reikaði burtu. Hjarta hans var harmþrungið. Frelsis-vonin og endurminningin um fjarlæga eiginkonu og börn reis í huga hans á sama hátt og þegar skipbrotsmaður, sem á skamt eptir í höfn, sér kirkjuturninn og húsaþökin í kæru fæðingarþorpi sínu, einungis til að kveðja það í allra hinnsta sinn. Hann þrýsti höndunum fast að brjósti sínu, og reyndi að stöðva bitru tárin, sem leituðu ofan kinnar hans, og hann reyndi til að biðja. Það var stórkostleg áreynsla fyrir hann, og því optar sem hann reyndi til að segja: „verði þinn vilji,“ því þyngra varð honum.

Hann kom að máli við Ophelíu, sem jafnan hafði verið vingjarnleg við hann síðan Eva dó.

„Ungfrú Fely,“ sagði hann. „Húsbóndinn sálaði var búinn að lofa mér frelsi. Hann sagðist vera byrjaður á að semja skjal því viðvíkjandi; og nú vill ungfrú Fely máske gjöra svo vel og tala um þetta við frúna, hvort hún vilji ekki halda því áfram, með því það var ósk húsbóndans.“

„Eg skal tala máli þínu Tómas, og gjöra það sem eg get,“ sagði Ophelía.

Hún reyndi til þess, en það kom allt fyrir ekki. Frú St. Clare var fædd og uppalin á meðal þræla, og var frá blautu barnsbeini alin upp við að sjá þá meðhöndlaða eins og hunda.