Blaðsíða:Harriet Beecher Stowe - Tómas frændi.djvu/95

Þessi síða hefur verið staðfest

XX. Heitið efnt.

Georg Shelby hafði ritað móður sinni og sagt henni hvenær hún mætti búast við sér heim. Hann hafði ekki hjarta í sér til að skrifa um andlát hins gamla vinar síns. Hann gjörði nokkrar tilraunir í þá átt, en jafnan lauk þeim svo, að hann reif bréfið í sundur, þurkaði sér um augun, og varð að ganga eitthvað til að ná rósemi sinni.

Það var mikil tilhlökkun á heimili Shelbys daginn sem von var á hinum unga „massa Georg“.

Loksins heyrðist vagnhljóð.

„Massa Georg!“ sagði Klóa frænka og þaut út að glugganum. Frú Shelby hljóp fram í dyrnar; þar mætti hún syni sínum, er tók hana í faðm sér.

Klóa stóð kvíðafull á svip og horfði fram fyrir sig.

„Veslings Klóa frænka!“ sagði Georg, og tók utan um hörðu, dökku hendurnar hennar, „Eg hefði viljað gefa aleigu mína til að geta komið með hann með mér, — en hann er farinn til betri heimkynna“.

Frú Shelby hrópaði upp yfir sig, en Klóa sagði ekkert; hún sneri sér undan og ætlaði út úr herberginu. Frú Shelby gekk hægt á eptir henni, tók í aðra hönd hennar, leiddi hana með sér að stól, lét hana setjast og settist hjá henni.

„Veslings, góða Klóa mín!“ sagði hún. Klóa lagði höfuðið að öxl húsmóður sinnar og sagði með þungum ekka: „Ó! missus, missus, hjarta mitt springur af sorg!“

86