Blaðsíða:Norsk avfintyri b1.pdf/19

Þessi síða hefur verið staðfest

13

og hvar höll sú væri, sem stæði fyrir austan sól og vestan mána.

En eins fór það þarna. „Kanske það sjert þú, sem hefðir átt að verða kona þessa konungssonar?“ spurði kerlingin.

Ójú, ekki var því að neita.

En þessi kerling vissi ekki betur um leiðina til hallarinnar, en hinar. Hún vissi að höllin var fyrir austan sól og vestan mána, „og þangað kemstu seint eða aldrei“, sagði hún, „en hestinn minn geturðu fengið lánaðan og á honum geturðu farið til Austanvindsins, og spurt hann. Kannske hann viti um þetta. Þegar þú ert komin þangað, skaltu bara slá hestinn undir vinstra eyrað og segja honum að fara heim, þá gerir hann það“. Og svo gaf kerling henni gullrokkinn. „Það getur verið að þú þarfnist hans“, sagði hún.

Nú reið stúlkan í marga daga eftir vondum vegi, en loksins komst hún á ákvörðunarstaðinn, og spurði Austanvindinn, hvort hann gæti vísað sjer leið til konungssonarins, sem byggi í höllinni fyrir austan sól og vestan mána.

Jú, Austanvindurinn sagðist hafa heyrt talað um þennan konungsson, og höllina líka, en leiðina vissi hann ekki um, því hann hefði aldrei blásið svo langt. „En ef þú vilt, þá skal jeg fylgja þjer til bróður míns, Vestanvindsins, kannske hann viti þetta, því hann er sterkari en jeg, sestu bara á bakið á mjer, þá skal jeg bera þig til hans“.

Hún gerði það og þau voru fljót í ferðum. Þegar þau komu til Vestanvinds, gengu þau inn, og Austanvindur sagði, að stúlkan sem með honum væri, hefði átt að verða kona konungssonarins í höllinni fyrir austan sól og vestan mána, nú væri hún að leita að honum, og hann hefði fylgt henni þangað, og vildu þau fá að vita, hvort Vestanvindur vissi nokkur skil á leiðinni til hallarinnar.

„Nei, svo langt hefi jeg aldrei blásið“, sagði Vestanvindur, „en ef þú vilt, þá skal jeg fylgja þjer til Sunn-