17
tvær nætur, og þetta sagði fólkið konungssyni. Um kvöldið, þegar sú langnefjaða kom með súpu, sem í var svefnlyf, ljest kóngssonur drekka, en hann helti reyndar súpunni niður, því nú vissi hann, að þarna var ólyfjan í. Þegar svo stúlkan kom inn, var kóngssonur vakandi, og hún sagði honum, hvernig hún hefði komist þangað.
„Ja, mátulega komstu líka“, sagði hann, „því á morgun á jeg að gifta mig, en jeg vil ekki eiga þessa nefljótu, og þú ert sú eina, sem getur frelsað mig frá slíkri ógn og skelfingu. Jeg ætla að segja, að jeg vilji sjá, hvað konuefnið mitt geti, og biðja hana að þvo tólgarblettina þrjá úr skyrtunni, það heldur hún sig geta gert, því hún veit ekki, að það varst þú, sem settir þá í skyrtuna, en það geta ekki nema kristnir menn náð þeim úr, og alls ekki þessi galdra- og tröllalýður hjerna, og svo ætla jeg að segja, að jeg vilji enga aðra eiga fyrir konu en þá, sem geti náð blettunum úr, og það veit jeg að þú getur“.
Þau glöddust nú mjög yfir þessu áformi. En daginn eftir, þegar brúðkaup átti að halda, sagði kóngssonur: „Fyrst vil jeg sjá, hvað konuefnið mitt getur“.
„Jú, það er ekki að undra“, sagði stjúpan.
„Jeg á hjer dýrindis skyrtu, sem jeg ætla að vera í, þegar jeg gifti mig, en það eru komnir í hana þrír tólgarblettir, og þá vil jeg láta þvo burtu, og jeg hefi svarið, að jeg geng ekki að eiga neina aðra fyrir konu en þá, sem getur náð burtu þessum blettum, ef hún getur það ekki, þá verður hún heldur engin eiginkona nje húsmóðir“.
Ja, þær hjeldu nú ekki, mæðgurnar, að það væri mikill vandi að ná úr þessum blettum, og sú neflanga fór að þvo, en því meir sem hún þvoði og núði, því stærri urðu blettirnir.
„Æ, ósköp eru að sjá til þín“, sagði stjúpan. „Láttu mig fá skyrtuna“. En hún var ekki fyrr byrjuð á þvottinum, en skyrtan varð enn ljótari, og blettirnir stærri og svartari eftir því sem hún núði hana meir.
Svo fór meira af galdralýðnum að reyna, en það fór