Brennu-Njáls saga
11. kafli

Þorvaldur reið heim frá boðinu og kona hans með honum og Þjóstólfur. Hann fylgdi hesti Hallgerðar og töluðu þau jafnan.

Ósvífur veik að syni sínum og mælti: „Unir þú vel ráðinu eða hversu fór tal með ykkur?“

„Vel,“ segir hann, „alla blíðu lét hún uppi við mig og mátt þú sjá mót á er hún hlær við hvert orð.“

„Eigi ætla eg hlátur hennar jafngóðan sem þú,“ segir Ósvífur, „en það mun þó síðar reynast.“

Þau ríða þar til er þau koma heim. Um kveldið sat hún hjá bónda sínum og skipaði Þjóstólfi hið næsta sér innar frá. Fátt áttust þeir við Þjóstólfur og Þorvaldur og varð þeim fátt að orðum og fór svo fram um veturinn.

Hallgerður var fengsöm og stórlynd enda kallaði hún til alls þess er aðrir áttu í nánd og hafði allt í sukki. En er voraði var þar búskortur og skorti bæði mjöl og skreið.

Hallgerður kom að máli við Þorvald og ræddi: „Eigi munt þú þurfa að sitja til alls því bæði þarf í búið mjöl og skreið.“

Þorvaldur mælti: „Ekki fékk eg nú minna til bús en vant var og entist þá allt á sumar fram.“

Hallgerður mælti: „Ekki fer eg að því þó að þú hafir svelt þig til fjár og faðir þinn.“

Þá reiddist Þorvaldur og laust hana í andlitið svo að blæddi og gekk síðan í braut og kvaddi húskarla sína með sér og hrundu þeir fram skútu og hljópu þar á átta karlar og reru út í Bjarneyjar. Tók hann þar skreið sína og mjöl.

Nú er að segja frá Hallgerði að hún sat úti og var skapþungt.

Þjóstólfur gekk að og sá að hún var særð í andlitinu og mælti: „Hví ert þú svo illa leikin?“

„Þorvaldur veldur því bóndi minn,“ sagði hún, „og stóðst þú mér þá fjarri ef þér þætti nokkuð undir um mig.“

„Eg vissi eigi,“ segir hann, „en þó skal eg þessa hefna.“

Síðan gekk hann á braut og til fjöru og hratt fram skipi sexæru og hafði í hendi öxi mikla er hann átti, vafinskeftu. Hann stígur á skip og rær út í Bjarneyjar. Og er hann kom þar voru allir menn rónir nema Þorvaldur og förunautar hans. Hann var að hlaða skútuna en þeir báru á út, menn hans.

Þjóstólfur kom að í því og hljóp upp á skútuna og hlóð með honum og mælti: „Bæði ert þú að þessu lítilvirkur og óhagvirkur.“

Þorvaldur mælti: „Hyggst þú munu betur gera?“

„Það eitt munum við að hafast að eg mun betur gera en þú,“ segir Þjóstólfur, „og er sú kona illa gift er þú átt og skyldu ykkrar samfarar skammar vera.“

Þorvaldur þreif upp handsax eitt er var hjá honum og leggur til Þjóstólfs. Þjóstólfur hafði öxina á öxl sér og laust á mót og kom á hönd Þorvaldi og brotnaði handleggurinn en saxið féll niður. Síðan færði Þjóstólfur upp öxina í annað sinn og hjó í höfuð Þorvaldi og hafði hann þegar bana.