Brennu-Njáls saga
112. kafli


Hildigunnur vaknaði og fann að Höskuldur var í brautu úr rúminu. Hún mælti: „Harðir hafa draumar verið og eigi góðir og leitið þér að honum Höskuldi.“

Þeir leituðu hans um bæinn og fundu hann eigi. Þá hafði Hildigunnur klædda sig. Fer hún þá og tveir menn með henni til gerðisins og finna þar Höskuld veginn.

Þar kom þá og smalamaður Marðar Valgarðssonar og segir henni að þeir Njálssynir hefðu farið neðan þaðan „og kallaði Skarphéðinn á mig og lýsti víginu á hönd sér.“

„Karlmannlegt verk væri þetta,“ sagði Hildigunnur, „ef einn hefði að verið.“

Hún tók skikkjuna og þerraði með blóðið allt og vafði þar í innan blóðlifrarnar og braut svo saman og lagði niður í kistu sína.

Nú sendir hún mann upp til Grjótár að segja þangað tíðindin. Þar var Mörður fyrir og hafði sagt áður tíðindin. Þar var og kominn Ketill úr Mörk.

Þorgerður mælti til Ketils: „Nú er Höskuldur dauður sem við vitum. Og mun þú nú hverju þú hést þá er þú tókst hann til fósturs.“

„Það má vera,“ segir Ketill, „að eg hafi þá ærið mörgu heitið því að eg ætlaði ekki að þessir dagar mundu verða sem nú eru orðnir. Enda er eg við vant um kominn því að náið er nef augum þar sem eg á dóttur Njáls.“

„Hvort vilt þú,“ segir Þorgerður, „að Mörður lýsi víginu?“

„Eigi veit eg það,“ segir Ketill, „því að fleirum þykir mér sem illt leiði af honum en gott.“

En þegar er Mörður talaði við Ketil þá fór honum sem öðrum að svo þótti sem Mörður mundi honum vera trúr og varð það ráð þeirra að Mörður skyldi lýsa víginu og búa mál að öllu til þings.

Fór Mörður þá ofan í Ossabæ. Þangað komu níu búar þeir er næstir bjuggu vettvangi. Mörður hafði tíu menn með sér. Hann sýnir búum sár Höskulds og nefnir votta að benjum og nefnir mann til hvers sárs nema eins. Það lét hann eigi sem hann vissi hver því hefði sært en því hafði hann sjálfur sært. En hann lýsti víginu á hendur Skarphéðni en sárum á hendur bræðrum hans og Kára. Síðan kvaddi hann heiman vettvangsbúa níu til alþingis. Eftir það reið hann heim.

Hann fann nær aldrei Njálssonu en þó var styggt með þeim þá er þeir fundust og var það ráðagerð þeirra.

Víg Höskulds spurðist um allar sveitir og mæltist illa fyrir.

Þeir Njálssynir fóru að finna Ásgrím Elliða-Grímsson og báðu hann liðveislu.

„Þess megið þér von vita,“ segir hann, „að eg mun yður veita að öllum hinum stærrum málum. En þó segir mér þungt hugur um málin því að margir eru til eftirmáls en víg þetta mælist allilla fyrir um allar sveitir.“

Nú fara Njálssynir heim.