Brennu-Njáls saga
118. kafli

Njáll mælti til Skarphéðins: „Hverja ráðagerð hafið þér nú fyrir yður bræður og Kári?“

Skarphéðinn mælti: „Lítt rekjum vér drauma til flestra hluta. En þér til að segja þá munum vér ríða í Tungu til Ásgríms Elliða-Grímssonar og þaðan til þings. En hvað ætlar þú um ferð þína faðir?“

Njáll svaraði: „Ríða mun eg til þings því að það er sómi minn að skiljast eigi við yðvart mál meðan eg lifi. Væntir mig þess að margir verpi þar vel orðum á mig og njótið þér mín en gjaldið hvergi.“

Þar var Þórhallur Ásgrímsson fóstri Njáls. Þeir Njálssynir hlógu að honum er hann var í kasti mórendu og spurði hve lengi hann ætlaði að hafa það.

Þórhallur svaraði: „Kastað skal eg því hafa þá er eg á að mæla eftir fóstra minn.“

Njáll mælti: „Þá munt þú best gefast er mest liggur við.“

Þeir búast nú allir heiman þaðan og voru nær þrír tigir manna og riðu þar til er þeir komu til Þjórsár. Þá komu þeir eftir frændur Njáls, Þorleifur krákur og Þorgrímur hinn mikli. Þeir voru synir Holta-Þóris og buðu lið sitt Njálssonum og atgöngu og þeir þágu það. Ríða þá allir saman yfir Þjórsá og þar til er þeir komu á Laxárbakka og æja þar. Þar kom til móts við þá Hjalti Skeggjason og tóku þeir Njáll tal með sér og töluðu lengi hljótt.

Hjalti mælti: „Það mun eg sýna jafnan að eg er ekki myrkur í skapi. Njáll hefir beðið mig liðveislu. Hefi eg og í gengið og heitið honum mínu liðsinni. Hefir hann áður selt mér laun og mörgum öðrum í heilræðum sínum.“

Hjalti segir Njáli allt um ferðir Flosa.

Þeir sendu Þórhall fyrir í Tungu að segja Ásgrími að þeir mundu þangað um kveldið. Ásgrímur bjóst þegar við og var úti er Njáll reið í tún. Njáll var í blárri kápu og hafði þófahött á höfði og taparöxi í hendi. Ásgrímur tók Njál af hesti og bar hann inn og setti hann í hásæti. Síðan gengu þeir inn allir Njálssynir og Kári. Ásgrímur gekk þá út. Hjalti vildi snúa í braut og þótti þar of margt vera. Ásgrímur tók í taumana og kvað hann eigi skyldu ná í braut að ríða og lét taka af hestum þeirra og fylgdi Hjalta inn og setti hann hjá Njáli en þeir Þorleifur sátu á annan bekk og menn þeirra.

Ásgrímur settist á stól fyrir Njál og spurði: „Hversu segir þér hugur um mál vor?“

Njáll svarar: „Heldur þunglega því að mig uggir að hér muni eigi gæfumenn í hlut eiga. En það vildi eg vinur að þú sendir eftir öllum þingmönnum þínum og ríð til þings með mér.“

„Það hefi eg ætlað,“ segir Ásgrímur, „og því mun eg heita þér með að úr yðrum málum mun eg aldrei ganga meðan eg fæ nokkura menn að með mér.“

En allir þökkuðu honum þeir er inni voru og kváðu slíkt drengilega mælt.

Þar voru þeir um nóttina en um daginn eftir kom þar allt lið Ásgríms. Síðan ríða þeir allir saman þar til er þeir koma á þing upp og voru áður tjaldaðar búðir þeirra.