Brennu-Njáls saga
122. kafli


Njáll stóð þá upp og mælti: „Þess bið eg Hall af Síðu og Flosa og alla Sigfússonu og alla vora menn að þér gangið eigi í braut og heyrið mál mitt.“

Þeir gerðu svo.

„Hann mælti þá: „Svo sýnist mér sem mál þetta sé komið í ónýtt efni og er það að líkindum því að af illum rótum hefir upp runnið. Vil eg yður það kunnigt gera að eg unni meira Höskuldi en sonum mínum og þá er eg spurði að hann var veginn þótti mér slökkt hið sætasta ljós augna minn og heldur vildi eg misst hafa allra sona minna, og lifði hann. Nú bið eg þess Hall af Síðu og Runólf úr Dal, Gissur hvíta og Einar Þveræing og Hafur hinn spaka að eg nái að sættast á víg þetta fyrir hönd sona minna og vil eg að geri um þeir er best eru til fallnir.“

Þeir Gissur og Einar og Hafur töluðu langt erindi sínu sinni hver þeirra og báðu Flosa sættast og hétu honum sinni vináttu í mót. Flosi svaraði þá öllu vel og hét þó eigi.

Hallur af Síðu mælti þá til Flosa: „Vilt þú nú efna orð þín og veita mér bæn mína er þú hést að veita mér þá er eg kom utan Þorgrími syni Digur-Ketils frænda þínum þá er hann hafði vegið Halla hinn rauða?“

Flosi mælti: „Veita vil eg þér mágur því að þú munt þess eins biðja að mín sæmd sé þá meiri en áður.“

Hallur mælti: „Þá vil eg að þú sættist skjótt og látir góða menn gera um og kaupir þú þér svo vináttu hinna bestu manna.“

Flosi mælti: „Það vil eg yður kunnigt gera að eg vil gera fyrir orð Halls mágs míns og annarra hinna bestu drengja að hér geri um sex menn af hvorra hendi löglega til nefndir. Þykir mér Njáll maklegur vera að eg unni honum þessa.“

Njáll þakkaði honum og þeim öllum og aðrir þeir er hjá voru og kváðu Flosa vel fara.

Flosi mælti: „Nú vil eg nefna mína gerðarmenn. Nefni eg fyrstan Hall mág minn og Össur frá Breiðá, Surt Ásbjarnarson úr Kirkjubæ, Móðólf Ketilsson“ - hann bjó þá í Ásum - „Hafur hinn spaka og Runólf úr Dal og mun það einmælt að þessir séu best til fallnir af öllum mínum mönnum.“

Bað hann nú Njál nefna sína gerðarmenn.

Njáll stóð þá upp og mælti: „Til þess nefni eg fyrstan Ásgrím Elliða-Grímsson og Hjalta Skeggjason, Gissur hvíta og Einar Þveræing, Snorra goða og Guðmund hinn ríka.“

Síðan tókust þeir í hendur, Njáll og Flosi og Sigfússynir, og handsalaði Njáll fyrir alla sonu sína og Kára mág sinn það sem þessir tólf menn dæmdu. Og mátti svo að kveða að allur þingheimur yrði þessu feginn. Voru þá sendir menn eftir Snorra og Guðmundi því að þeir voru í búðum sínum. Var þá mælt að dómendur skyldu sitja í lögréttu en allir aðrir gengju í braut.