Brennu-Njáls saga/21
Nú er þar til máls að taka er Unnur hefir látið allt lausaféið. Hún gerði heiman ferð sína til Hlíðarenda og tók Gunnar vel við frændkonu sinni og var hún þar um nóttina. Um daginn eftir sátu þau úti og töluðu. Kom þar niður tal hennar að hún sagði honum hversu þungt henni féll til fjár.
„Illa er það,“ sagði hann.
„Hver úrræði vilt þú veita mér?“ sagði hún.
Hann svaraði: „Haf þú fé svo mikið sem þú þarft er eg á á leigustöðum.“
„Eigi vil eg það,“ segir hún, „að eyða fé þínu.“
„Hversu vilt þú þá?“ segir hann.
„Eg vil að þú heimtir fé mitt undan Hrúti,“ segir hún.
„Eigi þykir mér það vænt,“ segir hann, „þar er faðir þinn fékk eigi heimt og var hann lögmaður mikill en eg kann lítt til laga.“
Hún svaraði: „Meir þreytti Hrútur það með kappi en með lögum en faðir minn var gamall og þótti mönnum því það ráð að þeir þreyttu það ekki með sér. Enda er sá engi minn frændi að gangi í þetta mál ef þú hefir eigi þrek til.“
„Þora mun eg,“ segir hann, „að heimta fé þetta en eigi veit eg hversu upp skal taka málið.“
Hún svaraði: „Far þú og finn Njál að Bergþórshvoli. Hann mun ráðin kunna til að leggja. Er hann og vinur þinn mikill.“
„Von er mér að hann ráði mér heilt sem öllum öðrum,“ segir hann.
Svo lauk með þeim að Gunnar tók við málinu en fékk henni fé til bús síns sem hún þurfti og fór hún heim síðan.
Gunnar ríður nú að finna Njál og tók hann við honum vel og gengu þegar á tal.
Gunnar mælti: „Heilræði er eg kominn að sækja að þér.“
Njáll svaraði: „Margir eru þess vinir mínir maklegir að eg leggi til það sem heilt er en ætla eg að eg leggi mesta stund á við þig.“
Gunnar mælti: „Eg vil gera þér kunnigt að eg hefi tekið fjárheimtu af Unni á Hrút.“
„Það er mikið vandamál,“ segir Njáll, „og mikil hætta hversu fer. En þó mun eg til leggja með þér það er mér þykir vænst og mun það endast ef þú bregður hvergi af en líf þitt er í hættu ef þú gerir eigi svo.“
„Hvergi skal eg af bregða,“ segir Gunnar.
Þá þagði Njáll nokkura stund og mælti síðan: „Hugsað hefi eg málið og mun það duga.“