Brennu-Njáls saga
46. kafli


Gissur hvíti hét maður. Hann var Teitsson Ketilbjarnarsonar hins gamla frá Mosfelli. Móðir Gissurar hét Ólöf. Hún var dóttir Böðvars hersis Víkinga-Kárasonar. Ísleifur byskup var sonur Gissurar. Móðir Teits hét Helga og var dóttir Þórðar Skeggja Hrappssonar Bjarnarsonar bunu. Gissur hvíti bjó að Mosfelli og var höfðingi mikill.

Sá maður er nefndur til sögunnar er Geir hét. Hann var kallaður Geir goði. Móðir hans hét Þorkatla og var dóttir Ketilbjarnar hins gamla frá Mosfelli. Geir bjó í Hlíð í Byskupstungu. Þeir Geir og Gissur fylgdust að hverju máli.

Í þenna tíma bjó Mörður Valgarðsson að Hofi á Rangárvöllum. Hann var slægur og illgjarn. Þá var Valgarður utan, faðir hans, en móðir hans önduð. Hann öfundaði mjög Gunnar frá Hlíðarenda. Hann var vel auðigur að fé og heldur óvinsæll.