Brennu-Njáls saga
9. kafli


Nú er þar til máls að taka að Hallgerður vex upp, dóttir Höskulds, og er kvenna fríðust sýnum og mikil vexti og því var hún langbrók kölluð. Hún var fagurhár og svo mikið hárið að hún mátti hylja sig með. Hún var örlynd og skaphörð.

Þjóstólfur hét fóstri hennar. Hann var suðureyskur að ætt. Hann var styrkur maður og vígur vel og hafði margan mann drepið og bætti engan mann fé. Það var mælt að hann væri engi skapbætir Hallgerði.

Maður er nefndur Þorvaldur. Hann var Ósvífursson. Hann bjó út á Meðalfellsströnd undir Felli. Hann var vel auðigur að fé. Hann átti eyjar þær er heita Bjarneyjar. Þær liggja út á Breiðafirði. Þaðan hafði hann skreið og mjöl. Þorvaldur var vel styrkur maður og kurteis, nokkuð bráður í skaplyndi.

Það var einu hverju sinni að þeir feðgar ræddu með sér hvar Þorvaldur mundi á leita um kvonfang. En það fannst á að honum þótti sér óvíða fullkosta.

Þá mælti Ósvífur: „Vilt þú biðja Hallgerðar langbrókar, dóttur Höskulds?“

„Hennar vil eg biðja,“ segir hann.

„Það mun ykkur eigi mjög hent,“ sagði Ósvífur, „hún er kona skapstór en þú ert harðlyndur og óvæginn.“

„Þar vil eg þó á leita,“ segir hann, „og mun mig eigi tjóa að letja.“

„Þú átt og mest í hættu,“ segir Ósvífur.

Síðan fóru þeir bónorðsför og komu á Höskuldsstaði og höfðu þar góðar viðtökur. Þeir ræddu þegar erindi sín fyrir Höskuldi og vöktu bónorðið.

Höskuldur svaraði: „Kunnigt er mér um hag ykkarn en eg vil enga vél að ykkur draga að dóttir mín er hörð í skapi. En um yfirlit hennar og kurteisi megið þið sjálfir sjá.“

Þorvaldur svaraði: „Ger þú kostinn því að eg mun skaplyndi hennar eigi láta fyrir kaupi standa.“

Síðan tala þeir um kaupið og spurði Höskuldur dóttur sína eigi eftir því að honum var hugur á að gifta hana og urðu þeir á sáttir á allan kaupmála. Síðan rétti Höskuldur fram höndina en Þorvaldur tók í og fastnaði sér Hallgerði og reið heim við svo búið.