Brennu-Njáls saga
92. kafli

Nú verður umræða mikil um deild þeirra og þóttust allir vita að eigi mundi svo gert sjatna.

Runólfur son Úlfs aurgoða austur í Dal var vin Þráins mikill og hafði boðið Þráni heim og var ákveðið að hann skyldi koma austur er þrjár vikur væru af vetri eða mánuður.

Þráinn bað til þessar ferðar Hrapp með sér og Grana Gunnarsson, Gunnar Lambason, Lamba Sigurðarson og Loðin og Tjörva. Þeir voru átta. Þær skyldu og fara mæðgur Hallgerður og Þorgerður. Því lýsti og Þráinn að hann ætlaði að vera í Mörk með Katli bróður sínum og kvað á hversu margar nætur hann ætlaði heiman að vera. Þeir höfðu allir alvæpni. Riðu þeir austur yfir Markarfljót og fundu þar konur snauðar. Þær báðu að þær skyldi reiða vestur yfir fljótið. Þeir gerðu svo.

Þá riðu þeir í Dal og höfðu þar góðar viðtökur. Þar var fyrir Ketill úr Mörk. Sátu þeir þar tvær nætur. Runólfur og Ketill báðu Þráin að hann mundi semja við Njálssonu en hann lést aldrei mundu fé gjalda og svaraði styggt og kveðst hvergi þykjast varbúinn við Njálssonum hvar sem þeir fyndust.

„Vera má að svo sé,“ segir Runólfur, „en eg hefi hina skilning að engi sé þeirra maki síð er Gunnar að Hlíðarenda lést og er það líkara að hér dragi öðrum hvorum til bana.“

Þráinn kveðst ekki það mundu hræðast.

Þá fór Þráinn upp í Mörk og var þar tvær nætur. Síðan reið hann ofan í Dal og var hann hvartveggja út leystur með sæmilegum gjöfum.

Markarfljót féll í meðal höfuðísa og voru á smár spengur hér og hvar. Þráinn sagði að hann ætlaði heim að ríða um kveldið. Runólfur mælti að hann skyldi eigi heim ríða, sagði það varlegra vera að fara eigi sem hann hefði sagt.

Þráinn svarar: „Hræðsla er það og vil eg það eigi.“

Göngukonur þær er þeir Þráinn reiddu yfir fljótið komu til Bergþórshvols og spurði Bergþóra hvaðan þær væru en þær sögðust vera austan undan Eyjafjöllum.

„Hver reiddi yður yfir Markarfljót?“ segir Bergþóra.

„Þeir er mestir oflátar voru,“ segja þær.

„Hverjir voru þeir?“ segir Bergþóra.

„Þráinn Sigfússon,“ sögðu þær, „og fylgdarmenn hans en það þótti oss að er þeir voru svo fjölorðir og illorðir hingað til bónda þíns og sona hans.“

Bergþóra mælti: „Margir kjósa eigi orð á sig.“

Síðan fóru þær í braut og gaf Bergþóra þeim gýligjafar og spurði þær hvenær Þráinn mundi heim koma. Þær sögðu að hann mundi vera heiman fjórar nætur eða fimm. Síðan sagði Bergþóra sonum sínum og Kára mági sínum og töluðu þau lengi leynilega.

En þann morgun hinn sama er þeir Þráinn riðu austan þá vaknaði Njáll snemma og heyrði að öx Skarphéðins kom við þili. Stendur þá Njáll upp og gengur út. Hann sér að synir hans eru með vopnum allir og svo Kári mágur hans. Skarphéðinn var fremstur. Hann var í blám stakki og hafði törguskjöld og öxi sína reidda um öxl. Næst honum gekk Kári. Hann hafði silkitreyju og hjálm gylltan, skjöld og var dreginn á leó. Næst honum gekk Helgi. Hann hafði rauðan kyrtil og hjálm og rauðan skjöld og markaður á hjörtur. Allir voru þeir í litklæðum.

Njáll kallar á Skarphéðinn: „Hvert skal fara frændi?“

„Í sauðaleit,“ sagði hann.

„Svo var og eitt sinn fyrr,“ segir Njáll, „og veidduð þér þá menn.“

Skarphéðinn hló að og mælti: „Heyrið þér hvað hann karlinn segir faðir vor. Eigi er hann grómlaus.“

„Hvenær mæltir þú þetta fyrr?“ segir Kári.

„Þá vó eg Sigmund hinn hvíta frænda Gunnars,“ segir Skarphéðinn.

„Fyrir hvað?“ sagði Kári.

„Hann hafði drepið Þórð leysingjason fóstra vorn,“ segir Skarphéðinn.

Njáll gekk inn en þeir fóru upp í Rauðaskriður og biðu þar. Máttu þeir þaðan sjá þegar hinir riðu austan frá Dal. Sólskin var um daginn og heiðviðri.

Nú ríða þeir Þráinn ofan frá Dal eftir eyrunum.

Lambi Sigurðarson mælti: „Skildir blika við í Rauðaskriðum er sólin skín á og mun þar vera nokkurra manna fyrirsát.“

„Þá skulum vér snúa ofan með fljótinu,“ segir Þráinn, „og munu þeir þá til móts við oss ef þeir eiga við oss nokkur erindi.“

Sneru þeir Þráinn þá ofan með fljótinu.

Skarphéðinn mælti: „Nú hafa þeir séð oss, því snúa þeir nú leiðinni og er oss nú engi annar til en hlaupa ofan fyrir þá.“

Kári mælti: „Margir munu fyrir sitja og hafa eigi þann veg liðsmun sem vér. Eru þeir átta en vér fimm.“

Snúa þeir nú og ofan með fljótinu og sjá yfir spöng niðri og ætla þar yfir.

Þeir Þráinn námu staðar upp frá spönginni á ísinum.

Þráinn mælti: „Hvað munu menn þessir vilja? Þeir eru fimm en vér erum átta.“

Lambi Sigurðarson mælti: Þess get eg að þó mundu þeir til hætta þó að manni stæði fleira fyrir.“

Þráinn fer af kápunni og tekur af sér hjálminn.

Það varð Skarphéðni er þeir hljópu ofan með fljótinu að stökk í sundur skóþvengur hans og dvaldist honum eftir.

„Hví hvikast þér svo Skarphéðinn?“ kvað Grímur.

„Bind eg skó minn,“ segir Skarphéðinn.

„Förum vér fyrir,“ segir Kári, „svo líst mér á Skarphéðinn sem hann muni ekki seinni verða en vér.“

Snúa þeir nú ofan til spangarinnar og fara mikinn. Skarphéðinn spratt upp þegar er hann hafði bundið skóinn og hafði upp öxina Rimmugýgi. Hann hleypur að fram að fljótinu en fljótið var svo djúpt að langt var um ófært. Mikið svell var hlaupið upp fyrir austan fljótið og svo hált sem gler og stóðu þeir Þráinn á miðju svellinu. Skarphéðinn hefur sig á loft og hleypur yfir fljótið meðal höfuðísa og stöðvar sig ekki og rennir þegar af fram fótskriðu. Svellið var hált mjög og fór hann svo hart sem fugl flygi. Þráinn ætlaði í því að setja á sig hjálminn. Skarphéðinn bar nú upp að fyrr og höggur til Þráins með öxinni Rimmugýgi og kom í höfuðið og klauf ofan í jaxlana svo að þeir féllu niður á ísinn. Þessi atburður varð með svo skjótri svipan að engi kom höggi á hann. Hann renndi þegar frá ofan óðfluga. Tjörvi renndi fyrir hann törgu og steðjaði hann yfir upp og stóðst þó og rennir á enda svellsins. Þá koma þeir Kári að neðan í mót honum.

„Karlmannlega er að farið,“ segir Kári.

„Eftir er enn yðvar hluti,“ segir Skarphéðinn.

Snúa þeir þá upp að þeim. Þeir Grímur og Helgi sjá hvar Hrappur var og sneru þegar að honum. Hrappur höggur þegar til Gríms með öxinni. Helgi sér þetta og höggur á höndina Hrappi svo að af tók en niður féll öxin.

Hrappur mælti: „Hér hefir þú mikið nauðsynjaverk unnið því að þessi hönd hefir mörgum manni mein gert og bana.“

„Hér skal nú endir á verða,“ segir Grímur og leggur spjóti í gegnum hann. Hrappur féll þá dauður niður. Tjörvi snýr í móti Kára og skýtur að honum spjóti. Kári hljóp í loft upp og flaug spjótið fyrir neðan fætur honum. Kári hleypur að honum og höggur til hans með sverðinu og kom á brjóstið og gekk þegar á hol og hafði hann þegar bana.

Skarphéðinn grípur þá báða senn, Gunnar Lambason og Grana Gunnarsson, og mælti: „Tekið hefi eg hér hvelpa tvo eða hvað skal við gera?“

„Kost átt þú,“ segir Helgi, „að drepa hvorntveggja ef þú vilt þá feiga.“

„Eigi nenni eg,“ segir Skarphéðinn, „að hafa það saman að veita Högna en drepa bróður hans.“

„Koma mun þar einu hverju sinni,“ segir Helgi, „að þú mundir vilja hafa drepið þá því að þeir munu þér aldrei trúir verða og engi þeirra er nú eru hér.“

„Ekki mun eg hræðast þá,“ segir Skarphéðinn.

Síðan gáfu þeir grið Grana Gunnarssyni og Gunnari Lambasyni og Lamba Sigurðarsyni og Loðni.

Eftir það sneru þeir heim og spurði Njáll tíðinda. Þeir segja honum öll sem gerst.

Njáll mælti: „Mikil eru tíðindi þessi og er það líkara að hér leiði af dauða eins sonar míns ef eigi verður meira að.“

Gunnar Lambason flutti lík Þráins með sér til Grjótár og var hann þar heygður.